Erfitt að yfirfæra rannsókn í S-Afríku á Evrópu

Magnús Gottfreðsson, sérfræðingur í smitsjúkdómalækningum á Landspítala og prófessor við …
Magnús Gottfreðsson, sérfræðingur í smitsjúkdómalækningum á Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Magnús Gottfreðsson, pró­fess­or í smit­sjúk­dóm­um og yf­ir­lækn­ir á Land­spít­ala, segir að skoða verði rannsóknir frá Suður-Afríku, sem gefa til kynna að Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar, valdi vægari einkennum en fyrri afbrigði, í faraldursfræðilegu samhengi. Ekki sé endilega hægt að bera saman aðstæður í mismunandi heimshlutum.

Síðast þegar mbl.is ræddi við Magnús var Ómíkron-afbrigðið glænýtt og óþekkt en nú hafa liðið örfáar vikur og þekkingin orðin meiri. Magnús segir að við séum komin úr startholunum hvað rannsóknir afbrigðisins varðar, en þó ekki komin með heildarmynd á hegðun þess og eiginleika. Hann lýsti því fyrir blaðamanni sem þó er vitað:

„Við vitum í fyrsta lagi að það virðist dreifa sér hraðar og hafa hærri smitstuðul en Delta-afbrigðið. Það eru spálíkön sem gera ráð fyrir að það muni taka yfir eftir tiltölulega skamman tíma, eins og gerðist með Delta-afbrigðið á sínum tíma.“

Ekki einfalt að fullyrða um vægari einkenni

Spurður út í vangaveltur um hvort Ómíkron-afbrigðið valdi vægari einkennum en þau sem önnur afbrigði hafa valdið segir hann að málið sé ekki alveg svo einfalt.

„Það eru komnar frumniðurstöður sem benda til þess að mótefnaverndin eftir bólusetningu, allavega Pfizer-bóluefnisins, virðist hafa vörn í för með sér gagnvart alvarlegum veikindum. Það eru einnig komnar fram frumniðurstöður frá Suður-Afríku, sem reyndar á eftir að skoða betur, sem benda til þess að einkenni kunni að vera vægari hjá þeim sem smitast hafa af Ómíkron-afbrigðinu,“ segir Magnús.

Magnús segir þó að það verði að slá varnagla við þær niðurstöður þar sem öðruvísi faraldursfræðilegar aðstæður hafa skapast þar í samanburði við það sem þekkist á Vesturlöndum til að mynda. Hann segir þannig að ónæmi vegna fyrri smita sé nokkuð mikið í Suður-Afríku þar sem þar hafa geisað miklar smitbylgjur.

Í öðru lagi bendir hann á að í Suður-Afríku, þar sem áðurnefnd rannsókn á einkennum af völdum Ómíkron-afbrigðisins var gerð, hafi Beta-afbrigði veirunnar verið útbreitt, en það afbrigði er að sumu leyti áþekkt hinu nýja Ómíkron-afbrigði. Þannig séu margir með náttúrulegt mótefni eftir smit af afbrigði sem á sameiginlega eiginleika með Ómíkron.

„Þess vegna held ég að það sé ekki hægt að gefa sér það, allavega á þessum tímapunkti, að reynslan frá Suður-Afríku sé fullkomlega yfirfæranleg á Evrópu og Norður-Ameríku,“ segir Magnús.

Segir viðbrögð á Norðurlöndum skiljanleg

Spurður hvað honum finnist um viðbrögð við hraðri útbreiðslu Ómíkron-afbrigðisins segir Magnús að hann skilji vel þær ákvarðanir sem teknar hafa verið á sumum Norðurlöndum. Þar hafa takmarkanir verið hertar að undanförnu til þess að sporna gegn útbreiðslu afbrigðisins.

„Þetta eru ákvarðanir sem eru breytilegar og helgast af stöðu faraldursins á hverjum stað fyrir sig og hverjum tíma. Mér sýnist að áhyggjurnar á Norðurlöndunum séu réttmætar, bæði í Danmörku og Noregi, og ef eitthvað er sýnist mér menn hafa gripið aðeins of seint í hemilinn, sérstaklega í Noregi. Þar er mjög hátt hlutfall af sýnum jákvætt, gríðarlega hátt raunar, sem er mikið áhyggjuefni og gefur til kynna að útbreiðslan sé meiri en menn áttuðu sig á. Það gerir að verkum að erfiðara er að ná stjórn á aðstæðunum og það gæti tekið lengri tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert