Árni sakar Ásgeir líka um ritstuld

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Önnur ásökun um meintan ritstuld Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra kemur frá sagnfræðingnum Árna H. Kristjánssyni. Í samtali við Fréttablaðið segir hann Ásgeir hafa, ásamt öðrum, framið ritstuld við ritun Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.

Ásgeir var einn af höfundum skýrslunnar. Hún kom út á vegum Alþingis árið 2014.

Bergsveinn Birgisson rithöfundur sakaði Ásgeir nýverið um ritstuld. Er sú ásökun tilkomin vegna bókarinnar Eyjan hans Ingólfs sem Ásgeir skrifaði og kom út nýverið. Bergsveinn telur að Ásgeir hafi byggt bókina á bókinni Leitin að svarta víkingnum sem Bergsveinn skrifaði. 

Ásgeir segist ekki kannast við deilur um höfundarrétt

Ásgeir hefur neitað sök í því máli og sagði hann í færslu á Facebook fyrir viku síðan að þarna hefði hann verið „þjófkenndur í fyrsta skipti á ævinni“.

Samkvæmt frétt Fréttablaðsins þykir Árna skjóta skökku við að seðlabankastjóri hafi látið þessi ummæli falla þar sem að ekki sé um að ræða fyrsta skiptið sem Ásgeir hafi verið sakaður um ritstuld. Árni bætir um betur og segir að það hafi verið staðfest.

Fréttablaðið sendi fyrirspurn á Ásgeir um málið og segir að hann geti engu svarað um málið, hann hafi komið að verkinu á lokastigum og viti ekkert um höfundarréttardeilur vegna þess.

Í frétt Fréttablaðsins er málið rakið nánar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert