Þorrablót íþróttafélaganna í lausu lofti

Frá Þorrablóti Stjörnunnar 2011.
Frá Þorrablóti Stjörnunnar 2011. Ernir Eyjólfsson

Bónda­dag­ur er 21. janú­ar næst­kom­andi og í eðli­legu ár­ferði væru stór þorra­blót á vegum íþróttafélaganna haldin víða um landið í þessum mánuði. Miðað við stöðu kórónuveirufaraldursins hér á landi er þó útlit fyrir að einhverjum þeirra verði frestað.

Erfitt að skipuleggja stórviðburði þessa dagana

Ungmannafélag Fjölnis stefndi á að halda þorrablót í Fjölnishöllinni í Egilshöll 22. janúar næstkomandi en að jafnaði sækja um þúsund manns viðburðinn á hverju ári. Ekki er þó víst að hægt verði að halda þorrablótið á tilsettum tíma, að því er Eva Björg Bjarnadóttir, markaðsstjóri Fjölnis greinir frá í samtali við mbl.is.

„Það stendur enn til að halda þorrablót en það lítur út fyrir að við þurfum að fresta því. Það er bara ekki búið að taka endanlega ákvörðun um það ennþá,“ segir hún.

Það hvort hægt verði að halda Þorrablótið á tilsettum tíma ráðist af framvindu kórónuveirufaraldursins næstu daga og hvaða sóttvarnarreglur verði í gildi þegar viðburðurinn á að fara fram, að sögn hennar.

„Við erum í raun bara að bíða eftir frekari fregnum. Það verður bara að koma í ljós hvað gerist. Það hlýtur eitthvað að fara skýrast núna, hvort smitunum fari fjölgandi eða ekki.

Það breytist allt svo hratt þessa dagana svo það er bara virkilega erfitt að skipuleggja svona viðburð þessa dagana, hvað þá svona fjölmennan viðburð eins og þorrablót.“

Yrði stórtjón að þurfa hætta við þorrablótið

Það sama er uppi á teningnum hjá Ungmennafélagi Stjörnunnar, segir Baldvin Sturluson, fjármálastjóri félagsins, inntur eftir því.

„Það verður skoðað á næstu klukkutímum hvort það verði yfir höfuð hægt að halda þetta, sem er alveg ólíklegt, eða hvort það verði hægt að gera eitthvað annað í staðinn eins og að hafa þetta minna í sniðum.“

Spurður hvort það komi til greina að halda rafrænt Þorrablát segir Baldvin það ekki hafa verið rætt ennþá.

„Við náðum að halda hefðbundið þorrablót rétt áður en faraldurinn skall á árið 2020 og í fyrra var þorrablótinu einfaldlega bara frestað. Þannig það hefur ekki komið til tals.“

Þá segir hann þorrablótið ekki aðeins eitt stærsta fjáröflunarverkefni sem félagið heldur og heldur sé það einnig stór félagslegur viðburður fyrir félagsmenn. Það yrði því mjög miður ef ekki verður hægt að halda það í ár.

„Veltan á þessum viðburðum er alveg gríðarleg. Við myndum tapa miklum fjármunum á að þurfa hætta við þorrablótið eða hafa það minna í sniðum, sem hjálpar okkur ekkert í baráttunni við hið opinbera. Vanalega eru um þúsund manns sem koma saman á þessu þorrablóti og því yrði það stórtjón að þurfa hætta við það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert