Tekist á um uppsagnir flugfreyja

mbl.is/Sigurður Bogi

Aðalmeðferð í máli Flugfreyjufélags Íslands gegn Icelandair í tengslum við uppsagnir á um 900 flugfreyjum og endurkomu 201 nokkru síðar fór fram fyrir Félagsdómi í gær. Búist er við að niðurstaða í málinu muni liggja fyrir á næstu vikum, en deilt er um hvort að ákvæði í kjarasamningum um starfsaldurslista eigi við í þessu tilfelli.

Haukur Örn Birgisson flutti málið fyrir Alþýðusamband Ísland, sem flytur málið fyrir hönd Flugfreyjufélagið. Í samtali við mbl.is segir hann að í kjölfar faraldursins og endurskipulagningar hjá Icelandair hafi 900 flugfreyjum verið sagt upp. Þegar línur fóru að skýrast á ný í fluggeiranum hafi 201 flugfreyja verið ráðin.

Í kjarasamningi flugfreyja er kveðið á um að í hópuppsögn skuli horft til starfsaldurslista og Flugfreyjufélagið byggir málflutning sinn á að borið hafi að endurkalla uppsagnirnar út frá starfsaldurslista. Það hafi hins vegar ekki gerst í öllum tilfellum og sú manneskja sem var neðst á starfsaldurslistanum og fékk vinnu á ný var númer 270. Segir Haukur Örn að líti því svo á að gengið hafi verið fram hjá 69 sem hafi verið ofar á listanum.

Samtök atvinnulífsins fluttu málið fyrir hönd Samtaka ferðaþjónustunnar vegna Icelandair. Haukur segir að mótaðilinn telji að um endurráðningu hafi verið að ræða, en ekki afturköllun og því hafi mátt líta til annarra þátta, þ.e. bæði starfsaldurs og frammistöðu. Einskorðast málið fyrir Félagsdómi við mat á þessu deiluatriði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert