„Skólar loka ef ekki er hægt að halda úti mannskap“

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara, segir ákvarðanir stjórnvalda um að halda grunnskólum opnum skipta litlu ef loka þarf skólum af öryggissjónarmiðum.

„Ákvarðanir stjórnvalda í sjálfu sér breyta engu þar um. Skólar loka ef ekki er hægt að halda úti mannskap sem dugar til að halda uppi að minnsta kosti öryggissjónarmiðum,“ segir Þorgerður í samtali við mbl.is.

Tilkynnt var í gær um að skólastarfi yrði haldið óbreyttu samkvæmt þeim takmörkunum sem tóku gildi á miðnætti.

Engin jafnréttisaðgerð

Kennarasambandið, sem Félag grunnskólakennara er aðili að, gaf frá sér yfirlýsingu í gærkvöldi þar sem það gagnrýndi ákvörðun stjórnvalda um að hafa tekið ákvörðun sem ekki var í samráði við skólasamfélagið.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði að loknum ríkisstjórnarfundi þar sem ákveðið var um aðgerðirnar að það að halda skólum opnum væri jafn­réttisaðgerð:

„Það skipt­ir máli ef skól­um er lokað, þá vit­um við auðvitað að það er mun al­geng­ara að kon­urn­ar séu heima með börn­in. Við höf­um bara staðið með þessu prinsippi,“ sagði Katrín.

Þorgerður segir sambandið ekki á sama máli.

„Það er auðvitað bara rangt í sjálfu sér, því að bæði karlar og konur taka á sig fjölskylduábyrgð eins og hefur sýnt sig í þessum faraldri.“

Lögbundinn réttur barna

Þorgerður segir að þó sé mikilvægt að halda skólum gangandi „þegar og ef hægt er“, enda sé um að ræða lögbundinn rétt sex til sextán ára barna.

„Við erum auðvitað fullkomlega meðvituð um hversu mikilvægar þessar stofnanir eru fyrir heilsu og velferð barna.

Þá er alltaf spurning hvort það séu einhverjar aðgerðir sem hægt er að grípa til til þess að tryggja að það séu þá færri skólar sem leggjast þá alveg af í einhvern tiltekinn tíma.“

Að því sögðu þurfi að bregðast við og „jafnvel með handbremsu í einhverjum tilfellum“.

Dæmi séu um að skólar úti á landi séu frjáls við veiruna í langan tíma „en um leið og það kemur upp smit þá sýnir það að það þarf að bregðast við hratt á hverjum stað“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert