Rekstur líkhúss ekki í verkahring sveitarfélagsins

Frá Egilsstöðum.
Frá Egilsstöðum. mbl.is/Arnar Þór

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings segir það ekki vera í verkahring þess að innrétta líkhús á Egilsstöðum eða taka ábyrgð á rekstri þess án þess að hafa verið falið það verkefni með lögum.

Þetta kom fram á fundi ráðsins í morgun þar sem fjallað var um hugmyndir um staðsetningu líkhúss í bænum. Líkhúsið hefur hingað til verið í húsnæði heilsugæslunnar á Egilsstöðum.

Í tillögu ráðsins, sem var samþykkt samhljóða, segir að hvergi í lögum sé neinum falið að reisa eða reka líkhús. „Ráðið telur með hliðsjón af því ekki rétt að sveitarfélag leggi í kostnað, sem hleypur á milljónum króna, við að innrétta líkhús eða taki ábyrgð á rekstri þess, án þess að hafa verið falið það verkefni með lögum eða að sérstaklega hafi verið um það samið,“ segir í tillögunni.

Beinir ráðið því til löggjafans að taka málefni líkgeymslu til skoðunar þegar í stað „enda núverandi lagaumhverfi með öllu ófullnægjandi“.

Stefán Bogi Sveinsson.
Stefán Bogi Sveinsson. Ljósmynd/Framsóknarfélag Múlaþings

Heilsugæslan vill losna við starfsemina

Í samtali við mbl.is segir Stefán Bogi Sveinsson, formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings, viðræður hafa verið í gangi vegna málsins um nokkurra ára skeið á milli sveitarfélagsins, heilsugæslunnar og kirkjunnar án þess að niðurstaða hefur fengist.  

Hann segir að þreifingar um nýtt líkhús hafi farið af stað þegar byggt var nýtt hjúkrunarheimili á Egilsstöðum og hafði heilsugæslan hug á því losna við þennan hluta starfseminnar, enda beri henni ekki samkvæmt lögum að halda utan um hana.

„Þegar öllu er á botninn hvolft er hvergi skilgreint hver á að sjá til þess að til staðar sé líkhús,“ segir Stefán Bogi og nefnir að þessi starfsemi sé með ýmsum hætti víða um land. Víða sé hún tengd heilbrigðisþjónustu á einhvern hátt.

Frá Fossvogskirkjugarði.
Frá Fossvogskirkjugarði. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Öðruvísi á höfuðborgarsvæðinu

Hann segir markað fyrir þessa þjónustu á höfuðborgarsvæðinu sem útfararþjónustur hafi m.a. sinnt, en þannig sé það ekki víða um land þar sem ekki séu forsendur fyrir slíkum rekstri. Því hafi þessi mál verið leyst með hinum og þessum hætti í gegnum tíðina.

„Einhver verður að bera ábyrgð á þessu. Mér finnst bráðmerkilegt að þetta gat hafi verið til staðar svona lengi í löggjöfinni. Það er enginn sem ber þessa skilgreindu ábyrgð á einhverju sem allir eru samt sammála um að þurfi að vera til staðar,“ greinir hann frá og vill meina að enginn hafi sýnt viðleitni til þess að leysa þennan vanda.

mbl.is