Færri en tíu þungunarrof eftir 20. viku

Áhorfendapallar Alþingis voru þétt setnir þegar umræður um þungunarrofslögin fóru …
Áhorfendapallar Alþingis voru þétt setnir þegar umræður um þungunarrofslögin fóru fram. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrátt fyrir að löggjöf um þungunarrof hafi verið rýmkuð til muna í lok árs árið 2019 gefa tölur fyrir árið 2020 ekki vísbendingar um að fjölgun hafi orðið á þungunarrofum sem framkvæmd eru síðar á meðgöngu.

Þetta kemur fram í nýjum talnabrunni Embættis landlæknis.

„Þvert á móti var mikill meirihluti þeirra kvenna sem undirgekkst þungunarrof árið 2020 genginn skemur en 9 vikur eða liðlega 83%. Til samanburðar var meðgöngulengd við þungunarrof minna en níu vikur hjá um 80% kvenna árin 2017 og 2018. Þá var þungun rofin fyrir lok 12. viku meðgöngu í rúmlega 95% tilvika árið 2020. Er það svipað og undanfarin ár,“ segir í talnabrunninum. 

Löggjöfin var á sínum tíma nokkuð umdeild og lagðist t.a.m. Inga Sæland, formaður, Flokks fólksins gegn frumvarpinu sem síðar varð að löggjöf. Frumvarpið hlaut stuðning 40 þingmanna gegn 18 en þrír voru fjarverandi.

962 þungunarrof voru framkvæmd árið 2020, flest hjá konum á aldrinum 25 til 29 ára. Aðeins fleiri þungunarrof voru framkvæmd 2018, 2017 og 2016 en tölur frá árinu 2019 eru ekki inni í talnagögnum á síðu Embættis landlæknis.

Innan við tíu framkvæmd eftir 20 vikur

Í talnabrunninum kemur fram að innan við tíu þungunarrof hafi verið framkvæmd eftir meira en 20 vikna meðgöngu árið 2020 eða 0,8% af heildarfjölda allra þungunarrofa. Það hlutfall hefur lítið breyst undanfarin ár.

„Samtímis ber að hafa í huga að uppruni gagna í nýrri ópersónugreinanlegri þungunarrofsskrá embættisins er ekki sá sami og fyrir lagabreytingu. Tíminn verður því að leiða í ljós hvernig tölfræði um þessa tegund heilbrigðisþjónustu kemur til með að þróast,“ segir í talnabrunninum. 

Nokkur munur var á tíðni þungunarrofa eftir búsetu kvenna árið 2020 en flest þungunarrof voru framkvæmd hjá konum búsettum á Suðurnesjum eða 13,8 á hverjar 1.000 konur á frjósemisaldri.

„Það er nokkuð yfir landsmeðaltali en tíðni þungunarrofa hjá konum á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu var hins vegar svipuð landsmeðaltali. Fæst voru þungunarrof hjá konum búsettum á Vestfjörðum, Austurlandi og Norðurlandi eða liðlega 9 á hverjar 1.000 konur 15-49 ára.“

mbl.is