Atvinnuleysið jókst í 5,2%

Húsnæði Vinnumálastofnunar.
Húsnæði Vinnumálastofnunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skráð atvinnuleysi á landinu jókst í seinasta mánuði úr 4,9% í desember í 5,2% í janúar. Fjölgaði atvinnulausum að meðaltali um 258 frá mánuðinum á undan. Aukning atvinnuleysis í fyrsta mánuði ársins er í samræmi við spá Vinnumálastofnunar um þróun atvinnuleysis í janúar. Spáir stofnunin því nú að atvinnuleysi muni ekki breytast mikið í febrúar og verða áfram á bilinu 5,1% til 5,3%.

Alls var 10.541 skráður atvinnulaus um seinustu mánaðamót. Atvinnuleysið mælist mest á Suðurnesjum þar sem það var 9,5% í janúar og jókst úr 9,3% í desember. Þá var atvinnuleysið á höfuðborgarsvæðinu 5,3% í seinasta mánuði og jókst þar einnig eða úr 5% í desember.

3.579 án vinnu í meira en ár

Þeim sem hafa verið án atvinnu í langan tíma hefur fækkað nokkuð eða um 223 á milli mánaða en alls höfðu 3.579 einstaklingar verið án atvinnu og í atvinnuleit í meira en tólf mánuði í lok janúar.

„Alls voru 2.240 einstaklingar á ráðningarstyrk innan stofnana og fyrirtækja í janúar en þeim fækkaði um 1.032 frá fyrri mánuði, hins vegar fjölgaði atvinnulausum í janúar um 380. Að jafnaði er um fjórðungur af þeim sem fara á ráðningarstyrk að koma aftur inn á atvinnuleysisskrá þegar ráðningarstyrk lýkur,“ segir í skýrslu VMST um atvinnuástandið, sem birt var í gær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert