Segir Drífu ósanngjarna og óheiðarlega

Ragnar Þór er formaður VR.
Ragnar Þór er formaður VR. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er mjög ósanngjarnt og óheiðarlegt af Drífu að setja þetta upp með þessum hætti,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.

Vísar hann þar til greinar sem Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), skrifaði og birtist á Vísir.is í dag. Þar segist Drífa ekki hafa geta setið lengur þegjandi hjá á meðan Ragnar málaði ASÍ upp með neikvæðum hætti og vilji svara nokkrum málum.

Eitt málanna varðar tillögur sem settar voru fram til að reyna að koma til móts við atvinnurekendur í upphafi Covid-faraldursins. Sagði Drífa Ragnar hafa viljað draga tímabundið úr mótframlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóð til að létta fyrirækjum róðurinn. Það hefði hins vegar ekki komið til greina og hafi Ragnar því rokið á dyr.

Dapurlegt að skauta framhjá skilyrðunum

Ragnar segir það hins vegar óheiðarlegt af Drífu að skauta framhjá þeim skilyrðum sem hann vildi setja. Sjálf hafi hún viljað frysta launahækkanir.

„Hún dregur þarna fram einhverja þætti sem snúa að tillögu okkar um lækkun á mótframlagi í lífeyrissjóði þegar Covid-faraldurinn var að byrja. Það stingur svolítið í stúf vegna þess að hún hafði sjálf lagt til að frysta launahækkanir. Sem við tókum ekki í mál að gera, en lögðum hins vegar til að það væri betra að fara þá leið að lækka mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð tímabundið gegn mjög stífum skilyrðum. Hún virðist alveg skauta framhjá því.“

Skilyrðin voru þau, að sögn Ragnars, að sett yrði þak á vísitölu verðtryggðra lána og húsaleigu og sömuleiðis að farið yrði í frystingu á verðlagshækkunum.

„Þrátt fyrir að við vitum í dag að mörg fyrirtæki hefðu ekki þurft á þessari eftirgjöf að halda þá hefðu skilyrðin ein og sér sem við settum fyrir þessari leið alltaf komið launafólki til mikilla góða. Réttindatapið sem hefði orðið í lífeyrissjóðunum hjá fólki á meðallaunum hefði verið í einhverjum hundraðköllum,“ segir Ragnar.

„Mér finnst dapurlegt að hún skauti framhjá þessum atriðum og talar eins og við höfum viljað ráðast á samtryggingarhluta lífeyrissjóðanna og lækka þetta mótframlag án nokkurra skilyrða,“ bætir hann við.

Vegur harkalega að samninganefnd VR

Ragnar segir Drífu þarna vega harklega að samninganefnd VR og tilefni sé að boða stjórn VR saman til að fara yfir málið. Hann hefur þó ekki tekið ákvörðun um hvort hann ætli að svara Drífu formlega.

„Þetta er allavega tilefni til þess að boða stjórn VR saman vegna þess að þarna er vegið mjög harkalega að stjórnarsamninganefnd VR. Hún gerir það og við erum máluð upp sem eins og einhverjir aumingjar sem hafi viljað gefa eftir lífeyrisréttindi til atvinnulífsins. Að setja þetta þannig upp er ofboðslega óheiðarlegt af Drífu,“ segir Ragnar og tekur fram að það sé ekki bara óheiðarlagt gagnvart honum heldur einnig gagnvart VR og samninganefnd félagsins, enda hafi þetta verið svar við hennar tillögu um að frysta launahækkanir.

Segir Drífu misbeita valdi sínu

Þá sagði Drífa að Ragnar talaði iðulega á þann veg að segði hann eitt­hvað í krafti embætt­is síns sem formaður stærsta aðild­ar­fé­lags­ins ætti það ein­fald­lega að gilda. „Hann hef­ur kallað eft­ir ein­földu meiri­hlutaræði og farið fram á at­kvæðagreiðslur um til­lög­ur sem fólk hef­ur hrein­lega ekki upp­lýs­ing­ar til að taka ákv­arðanir um. Hann hef­ur viljað af­greiða er­indi til miðstjórn­ar með ólík­um hætti eft­ir því frá hverj­um þau koma og kenn­ir lýðræðis­skorti um þegar hann fær ekki sínu fram,“ sagði Drífa meðal ann­ars í grein­inni.

Ragnar segist vissulega ekki hafinn yfir gagnrýni en hann hafi upplifað að hugmyndir sem Drífu þóknist ekki sé einfaldlega ýtt út af borðinu.

„Það sem ég upplifði er að ég kem með tillögur og þær eru ekki einu sinni teknar til afgreiðslu og það er misbeiting á valdi þegar þú færð ekki einu sinni tillögurnar þínar til lýðræðislegrar afgreiðslu og umræðu á vettvangi Alþýðusambandsins, þá er fokið í flest skjól. Ég get alveg sætt mig að verða undir í atkvæðagreiðslu séu hún gerð með lýðræðislegum hætti,“ segir Ragnar.

„Ef henni þóknast ekki hugmyndir sem henni koma frá okkur þá er þeim bara ýtt út af borðinu og fá ekki lýðræðislega afgreiðslu og það er stórkostlegt vandamál þarna inni,“ bætir hann við.

Óánægjan komi ekki bara frá Ragnari

Ragnar segir stöðuna innan hreyfingarinnar mjög dapurlega, en átökin séu auðvitað ekki ný af nálinni. Hreyfingin hafi til að mynda verið klofin í herðar niður í síðustu kjarasamningum.

Samtök atvinnulífsins séu því vel meðvituð um ágreininginn og spennuna innan hreyfingarinnar. „Það ætti að vera hlutverk forsetans að skapa þessa víðtæku sameiginlegu sátt innan hreyfingarinnar í gegnum Alþýðusambandið. Það hefur bara mistekist.“

Þessa miklu óánægju megi rekja til þess að forsetinn hluti ekki á félögin. Af því hafi skapast miklir samstarfsörðugleikar. Iðnaðarmannasamfélagið hafi nánast lýst yfir mótframboði gegn Drífu, en Kristján Þórður Snæbjörnsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, hafi staðfest að skorað hefði verið á hann að sækjast eftir embætti forseta í haust.

„Það gefur fullt tilefni til að álykta sem svo að iðnaðarmenn ætli sér að bjóða fram gegn sitjandi forseta á næsta þingi. Þannig þessi óánægja kemur ekki bara frá mér,“ segir Ragnar og vísar einnig til þess að mikill ágreiningur sé á milli Drífu og Sólveigar Önnu Jónsdóttur, kjörins formanns Eflingar. „Svo eru fjölmörg önnur félög sem hafa lýst yfir óánægju. Eins og til dæmis Húsavík, Grindavík, Akranes og síðast málmiðnarmenn fyrir norðan. Þetta virðist eins og staðan er í dag komið á einhverja endastöð gagnvart sitjandi forseta.“

Dettur enginn í hug sem gæti greitt úr ágreiningi

Ragnar studdi Drífu til forseta ASÍ á sínum tíma og segist hann hafa haft miklar væntingar til hennar, líkt og margir aðrir. Sérstaklega væntingar til þess að það næðist sátt innan sambandsins.

Hann segist ekki hafa svarið við því hvernig megi leysa þau átök sem séu að eiga sér stað innan hreyfingarinnar. Þetta snúist ekki hann eða Drífu eða einhvern annan, heldur hvort það sé einhver sem geti lagað ástandið innan ASÍ og greitt úr ágreiningi þeirra fylkinga sem takast þar á.

„Ég sé ekki fyrir mér að það sé nóg að breyta einhverjum forystuhlutverkum innan ASÍ til að það fúnkeri eins og maður vill. Það þarf að fara í mun dýpri skoðun og samtal en orðið hefur. Ég sé ekki fyrir mér að núverandi forseti geti leitt þá vinnu. Hver gæti gert það, ég hef ekki hugmynd um það, mér dettur enginn í hug.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert