#Mínarbuxur: Dómstólar gagnrýndir fyrir sýknudóm

Dómurinn hefur vakið nokkra athygli vegna röksemda sem taldar eru …
Dómurinn hefur vakið nokkra athygli vegna röksemda sem taldar eru úreltar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Héraðsdómur Reykjaness sýknaði á fimmtudag karlmann sem ákærður var fyrir nauðgun – í dóminum var framburði brotaþola og ákærða ljáð mikið vægi, og því veitt nokkur athygli hvernig brotaþoli var klæddur úr buxunum. 

Voru sönnunargögn á borð við áverkavottorð og greinargerð sálfræðings lögð fram af ákæruvaldinu, sem nægðu ekki til refsingar – málið hefur vakið nokkra athygli á samfélagsmiðlum og hrundið af stað myllumerkinu #mínarbuxur.

Ákveðin atriði stungu í augu dómara

„Við heildarmat á framburði brotaþola eru ákveðin atriði sem stinga í augun. Fyrir það fyrsta hefur brotaþoli aldrei lýst því hvernig ákærði klæddi hana úr öllum fötunum en fyrir liggur að hún var í uppháum leðurbuxum,“ segir í dóminum og bætt við að þar sem lögregla hafi ekki ljósmyndað buxurnar liggi ekki fyrir hversu auðvelt eða erfitt hafi verið að klæðast úr þeim.

Var maðurinn ákærður fyrir að haldið brotaþola niðri, skipað henni að hafa hljótt, tekið hana hálstaki og áreitt hana kynferðislega þrátt fyrir að hún hafi ekki sagst vilja slíkt. Gaf hún skýrslu fyrir lögreglu daginn eftir og var ákærði handtekinn um hádegið sama dag. 

Meira áfengismagn í blóði brotaþola en ákærða

Er staðhæft í dóminum að meira áfengismagn hafi mælst í blóði brotaþola en ákærða; breytti það ekki því að frásögn ákærða var talin skýrari og nákvæmari en frásögn brotaþola að mati dómsins. Var því einnig ljáð nokkurt vægi að samkvæmt áliti kvensjúkdómalæknis hafi hvorki verið unnt að útiloka að áverkar á kynfærasvæði brotaþola hafi hlotist við samþykktar samfarir né heldur að hálsáverkar hafi verið af völdum „kossa eða viðlíka“.

Í samantekt læknisins sagði þó að áverkar á hálsi og brjósti samrýmist vel frásögn brotaþola um að gerandi hafi m.a. tekið hana hálstaki og bitið hana. Þar segir og að áverkar á kynfærum hafi verið greinilegir.

#Mínarbuxur fer á flug

Í niðurstöðukafla dómsins var þá einnig litið til samskipta á Snapchat áður en brotið var framið þar sem ákærði segir „Ég elska þig A“, og taldi dómurinn að samskiptin bendi til þess að hann hafi ekki haft ásetning um að brjóta kynferðislega á brotaþola það kvöld.

Var maðurinn líkt og fram kemur í dómi sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins og bótakröfu ákærðu vísað frá en það var Jónas Jóhannsson héraðsdómari sem kvað upp úrskurðinn.

Fjöldi fólks hefur vakið athygli á röksemdum dómsins undir myllumerkinu #mínarbuxur, þar sem vakin er athygli á málsástæðum héraðsdóms hvað varðar klæðaburð brotaþola.










mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert