Ekkert viðbótarfjármagn í sumarfrístund í ár

Aðsókn í sumarfrístund var töluvert meiri síðustu tvö sumur en …
Aðsókn í sumarfrístund var töluvert meiri síðustu tvö sumur en árin þar á undan. mbl.is/Ómar Óskarsson

Töluvert færri pláss eru í boði í sumarfrístund frístundaheimila Reykjavíkurborgar í sumar en síðastliðin tvö sumur. Stöðugildum var fjölgað sumarið 2020 og 2021, í Covid - faraldrinum, bæði vegna vegna stöðu á atvinnumarkaði og aukinnar eftirspurnar eftir plássum.

Kom þá inn viðbótarfjármagn frá ríkinu, sem ekki lengur er í boði. Ásóknin er hins vegar mikil þetta árið og þá hlutfallslega mest í Vesturbæ Reykjavíkur, líkt og fyrri ár.

Þetta segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Eftirspurnin er töluvert meiri en fjöldi plássa sem er í boði. Margir foreldrar vöknuðu því upp við vondan draum fyrir hádegi á þriðjudaginn þegar í ljós kom að öll pláss voru uppurin og aðeins hægt að skrá börn á biðlista fyrir sumarfrístund. Skráning hófst klukkan 10 á þriðjudag í vefskráningarkerfinu Völu og í sumum hverfum voru öll pláss farin nokkrar mínútur yfir 10.

Sumarfrístund er fyrir börn í 1. til 4. bekk og er um að ræða námskeið sem fara fram í frístundaheimilum grunnskólanna. Börnin eru því í sínu hverfi með sínum vinum og geta verið á sama námskeiðinu allan daginn.

Viðbúnaður með tilfærslu fjármagns

„Síðustu tvö ár vorum við með viðbótarstöðugildi út af stöðunni á vinnumarkaði og mikið kom frá ríkinu. Sem þýddi að miðað við þennan viðmiðunarramma sem við erum með þá vorum við með viðbótarmannskap þannig við gátum boðið miklu fleirum heldur en norm gera ráð fyrir. Líka var aðsóknin tvö síðustu ár miklu meiri en árin þar á undan. Snérist það fyrst og fremst um að fólk var ekkert að fara erlendis,“ segir Helgi í samtali við mbl.is.

„Við erum hins vegar í þeim sporum að við vitum ekki alveg hver aðsóknin verður en við erum með viðbúnað við því, með tilfærslu fjármagns, að geta boðið upp á eins mikið af sumarstarfi og þörf er á,“ bætir hann við.

Ákveðið flækjustig fylgi því að vita ekki fyrirfram hve marga starfsmenn þurfi að ráða en það sé eitt af úrlausnarefnum næstu daga að „stilla þetta saman“ eins og hann orðar það. Skoða þurfi fjárveitingar og hvernig verði hliðrað til, til mæta þörfinni.

Markmiðið að mæta þörfinni

Er þá von til þess að plássum í sumarfrístund verði fjölgað?

„Markmiðið er í raun og veru að mæta þörfinni, en flækjustigið er að við vitum að ástandið var mjög sérstakt í íslensku samfélagi tvö seinustu ár og við fengum þennan viðbótarmannskap í gegnum ríkið í atvinnuátaki. Það er ekki í boði núna því samfélagið er komið á fullt og næga atvinnu að hafa á almennum markaði. Þá er þetta stillingaratriði hjá okkur. Hvar hreyfum við til, hvernig aukum við mannskapinn þannig við getum mætt þörfinni, sem er markmiðið.“

Ekki hafa allir tök á að vera við tölvu eða síma

Einnig hefur komið fram gagnrýni á skráningarkerfið sjálft og fyrirkomulag við skráningar. Til að koma barni sínu að í sumarfrístund þurftu foreldrar að vera tilbúnir á skráningarhnappnum á slaginu tíu og þá mátti ekkert klikka. Nokkrar mínútur yfir tíu var víða búið að fylla öll pláss og aðeins hægt að skrá á biðlista.

Ekki hafa allir foreldrar tök á því að vera við tölvu eða síma til að skrá börn sín á þessum tíma og því ljóst að ekki sitja allir við sama borð. Þá hefur það ítrekað gerst að kerfið þolir ekki álagið og hrynur þegar mikill fjöldi reynir að nota skráningarkerfið á sama tíma.

Stefna á notendavænna kerfi sem einfaldar lífið

Helgi segist meðvitaður um að kerfið þurfi að færa til betri vegar og það sé í vinnslu að gera það notendavænna fyrir foreldra.

„Við erum í stafrænni vegferð og við erum alltaf að reyna að gera kerfin okkar betri þannig það sé ekki þetta jakahlaup sem verður þegar áin brestur og allt þarf að ryðjast í gegn á sama tíma. þá þarf eitthvað undan að láta. Þetta er eitt af okkar úrlausnarverkefnum.“

Hann segir að þegar staðan sé þannig þá fari fólk jafnvel að bóka meira en þörf er á til að hafa vaðið fyrir neðan sig. Það valdi ennþá meiri spennu og auki á flækjustigið. Starfsfólk borgarinnar sé meðvitað um þetta og unnið hafi verið að úrbótum með tölvudeildinni á liðnum árum.

„Eins og við gerðum í vor þegar kom að skráningu úr leikskóla yfir í grunnskóla, það var stafrænt verkefni sem tókst mjög vel og einfaldaði lífið fyrir foreldra. Þangað erum við að fara með öll kerfin okkar, en það tekur tíma að þróa þetta og laga þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert