Ræddi við konurnar úr TikTok-myndbandinu

Ingólfur Þórarinsson (t.v.) og Sindri Þór Sigríðarson (t.h.).
Ingólfur Þórarinsson (t.v.) og Sindri Þór Sigríðarson (t.h.).

Lögmaður Sindra Þórs Sigríðarsonar hringdi í og ræddi við konur sem sökuðu Ingólf Þórarinsson nafnlaust um kynferðislegt ofbeldi áður en réttarhöld í málinu fóru fram í dag. Segist hún ekki hafa nokkra ástæðu til að efast um að þær hafi sagt sannleikann. Lögmaður Ingólfs segir að þau ummæli sem Sindri lét falla um Ingólf hafi gengið mun lengra en sögur af meintri háttsemi hans hafi gefið efni til.

Aðalmeðferð í máli Ing­ólfs gegn Sindra vegna um­mæla sem sá síðar­nefndi lét falla fór fram í héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Vill þrjár milljónir króna

Ingólf­ur kærði Sindra fyr­ir meiðyrði. Ingólfur vill að ummælin verði dæmd dauð og ómerk og krefst hann þriggja milljóna króna í miskabætur.

mbl.is tók lögmennina tvo tali í kjölfar réttarhaldanna í dag. Eins og við má búast eru þær ósammála um það hvort Sindri hafi sett ummæli sín fram í góðri trú eður ei.

„Það hefur ákveðin lína verið dregin í dómaframkvæmd og hún er sú að þú mátt tjá þig um hvað sem er svo lengi sem þú ert ekki að staðhæfa að einhver hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi,“ segir Sigrún Jóhannsdóttir, lögmaður Sindra.

Hún telur að Sindri hafi ekki sakað Ingólf um refsiverða háttsemi með ummælum sínum. Með þeim hafi hann viljað vekja athygli á því að fullorðnir karlmenn gætu löglega haft samræði við börn á aldrinum 15 til 17 ára.

Ummæli Sindra féllu bæði á Twitter og í athugasemdum við frétt Stundarinnar annars vegar og skoðanagrein frá lögfræðingnum Helga Áss á Vísi hins vegar.

Ummælin voru eftirfarandi:

  1. „Maður sem er svo þekkt­ur fyr­ir að ríða börn­um…“
  2. „Hvað finnst þér rétt­læt­an­legt að full­orðinn maður nýti frægð sína og valda­stöðu til að ríða mörg­um börn­um…“
  3. „Skemmtikraft­ur sem hef­ur stundað það síðastliðin 12-13 ár að ríða börn­um…“
  4. „Trallað í skít­beisikk kassagítar­út­gáfu af manni sem ríður börn­um…“
  5. „Til að vinna ör­ugg­lega un­lika­ble keppn­ina þá splæs­ir eig­and­inn í barnaríðing­inn.“

„Algjör eftiráskýring“

Auður Björg Jónsdóttir, lögmaður Ingólfs, telur aftur á móti að Sindri hafi sakað Ingólf um refsiverða háttsemi, enda sé ólöglegt að hafa samræði við börn undir 15 ára aldri og við börn á aldrinum 15 til 17 ára undir vissum kringumstæðum, til dæmis þegar valdaójafnvægi er til staðar eða tælingu er beitt.

Hvað þær skýringar Sindra varðar að hann hafi viljað vekja athygli á varnarleysi 15 til 17 ára barna með ummælunum segir Auður:

„Það er algjör eftiráskýring. Ummælin eru sett fram algjörlega fyrirvaralaust og sem staðreynd um að Ingólfur stundi að hafa samfarir við börn og hafi stundað það ítrekað í 12 til 13 ár.“

Auður bætir því við að í ummælunum komi hvergi fram að með börnum eigi Sindri við 15 til 17 ára og ekki annan aldur.

Til þess fallin að vekja fólk til umhugsunar

Sigrún segir að ef Sindri hefði ætlað sér að særa æru Ingólfs hefði hann getað tekið enn sterkar til orða og „vitnað í verstu sögurnar.“

„Þarna er tilgangurinn einmitt að sýna hve galið það er að 15 ára börn séu ekki vernduð. Hann náttúrulega notar groddalegt orðalag en eins og hann sagði í dag er hann ekki vanur að tala undir rós og það að hafa samfarir við börn þýðir með öðrum orðum að ríða börnum svo þetta var svolítið til þess að vekja fólk til umhugsunar,“ segir Sigrún.

Hún telur skýrt að einungis eigi að skerða tjáningarfrelsið í undantekningatilvikum og að umrætt frelsi sé alltaf að rýmka. Þá hafi Sindri með ummælum sínum lýst því sem „hann varð vitni að“ og á Sigrún þar við þá opinberu umræðu sem hafði skapast um meinta „kynferðislega háttsemi Ingólfs í garð stúlkna á aldrinum 15 til 18 ára.“

Sjálfur spurði Sindri í Twitter-þræði hvenær fólk hafi fyrst orðið vart við meinta hegðun Ingólfs.

„Það eru yfir 100 nafngreindir einstaklingar sem opinberlega staðhæfa að þeir hafi með einhverjum hætti orðið vitni að þessari háttsemi. Sjálfur bar hann vitni um það fyrir dómi að trúnaðarvinkonur hans hafi talað við þessar konur sem koma fram í TikTok-sögunum í þeirri trú að þetta séu raunverulegar sögur og raunverulegar konur,“ segir Sigrún.

„Hann getur ekki talið sér þetta í góðri trú“

Hún hefur sjálf rætt við „stóran hluta“ kvennanna.

„Ég get staðfest að ég hringdi í og ræddi við stóran hluta þessara kvenna sem koma fram í þessum TikTok sögum,“ segir Sigrún. „Ég hef enga ástæðu til þess að efast um þeirra frásögn og ég sé ekki hver hvatinn til þess að segja ósatt ætti að vera.“

Sigrún segir að Sindri hafi verið „í góðri trú“ um að sögurnar væri sannar.

„Aðalatriðið í þessu máli er að samkvæmt íslenskum lögum eru einstaklingar börn til 18 ára aldurs. Hann talar um að Ingólfur hafi verið að ríða börnum og þá á hann við börn á aldrinum 15 til 18 ára enda er refsilaust að hafa samfarir við börn á þeim aldri á Íslandi. Tilgangur ummælanna var í raun sá að vekja athygli á þessu vegna þess að hann telur þörf á aukinni réttarvernd þegar kemur að kynferðislegum samskiptum þeirra við menn á miðjum aldri.“

Auður er ekki sammála því að Sindri hafi verið í góðri trú.

„Ummælin eru ósönn og hann getur ekki talið sér þetta í góðri trú. Hann gat ekki verið í góðri trú vegna þess að hann hefur þetta ekki eftir neinum öruggum heimildum,“ segir Auður og bætir því við að það sé ekki rétt að Sindri megi „bera á einstakling hvað sem er á meðan það er ekki refsivert.“

„Það er alveg nóg að háttsemin sé siðferðilega ámælisverð,“ segir Auður sem vísar því á bug að orðalag Sindra hafi verið hóflegt.

„Ég get ekki ímyndað mér að vera borinn mikið ljótari sökum heldur en að hafa samræði við börn. Það er eitt alvarlegasta brot sem til er svo það er fráleitt að hann hafi verið hóflegur í orðalagi.“

Meðvituð ákvörðun að leiða ekki inn meinta þolendur

Fimm einstaklingar sem tjáðu sig undir fyrrnefndum Twitter-þræði Sindra um meinta háttsemi Ingólfs báru vitni í dómssal. Sigrún segir að meðvituð ákvörðun hafi verið tekin um að leiða ekki þangað þær konur sem sakað hafa Ingólf, nafnlaust, um að hafa brotið á þeim. Var það vegna þeirrar fjölmiðlaumfjöllunar sem hefur orðið til um málið.

Auður bendir á að öll vitnin hafi lýst einhverju sem aðrir hafi sagt Ingólf hafa gert þeim. Þ.e. frásagnirnar voru ekki af fyrstu hendi.

„Fólkið kom bara og lýsti sögusögnum,“ segir Auður um það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert