Fjölga kúlum í íslenska Lottó

Lagt hefur verið til að breyting verði gerð á Lottói Íslenskrar getspár sem felur í sér að leikurinn breytist úr Lottó 5/40 í Lottó 5/42, þ.e. nú þarf fimm réttar tölur af 42 til þess að vinna. Auk þess hefur verið lagt til að verð á seldri röð hækki úr 130 kr. í 150 kr. Þá verður einum vinningsflokki bætt við.

Íslensk getspá hefur óskað eftir við dómsmálaráðuneytið að þessar breytingar verði gerðar en tillögurnar má nú finna í Samráðsgáttinni.

„Við höfum farið mjög hægt í að breyta lottómatrixunni eða kúlufjöldanum. Við breyttum þessu síðast árið 2008, þá fórum við úr fimm tölum af 38 í fimm tölur af 40. Þá voru Íslendingar 315 þúsund en nú eru þeir um 370 þúsund. Við bara eltum íbúafjöldann,“ segir Stefán Konráðsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar getspár, í samtali við Morgunblaðið. Þar sem þátttakendur séu fleiri kalli það á þessar breytingar.

Íslensk getspá hóf rekstur á Lottó 5/32 árið 1986. Leiknum var breytt árið 1988 í 5/38 og hélst hann óbreyttur til ársins 2008.

Stefán segir að þannig nái leikurinn „að næra sig“ en vinningslíkurnar séu vissulega minni. „Leikurinn verður erfiðari fyrir vikið, við erum ekkert að reyna að plata neinn með það. Lottó er lottó og við erum bara að koma til móts við íbúafjölda en til þess að milda áhrifin komum við með nýjan vinningsflokk. Þá dreifast vinningarnir á fleiri.“ Nýi flokkurinn er þrjár réttar tölur og bónustala.

„Um leið hækkum við verðið um 20 krónur. Það hefur ekki verið gert síðan 2013. Miðað við vísitöluverð ætti röðin að kosta um 170 krónur.“

mbl.is