Líklegt að fólk hafi vara á umsóknum sínum

Lára segir að vissulega sé um að ræða sérstakar aðstæður …
Lára segir að vissulega sé um að ræða sérstakar aðstæður hjá Eflingu, þar sem öllum hafi verið sagt upp. Samsett mynd/mbl.is

Hæstaréttarlögmaður og sérfræðingur í vinnurétti telur líklegt að umsækjendur um störf þar sem aðeins er boðið upp á tímabundna ráðningu, hafi einhvern vara á umsóknum sínum.

Vissulega sé alltaf áhætta að skipta um starf, hvort sem um tímabundna ráðningu er að ræða eða ekki, en líklegra sé að störf með tímabundinni ráðningu höfði frekar til reynslulítils fólks sem ekki hefur unnið sér inn réttindi í öðru starfi.

Allir nýir ráðningarsamningar hjá stéttarfélaginu Eflingu verða tímabundnir til sex mánaða á meðan látið er reyna á nýtt skipulag, að fram kemur á heimasíðu Eflingar. 250 einstaklingar sóttu um störf hjá Eflingu sem auglýst voru laugardaginn fyrir páska, en auglýst var eftir fólki í allar stöður, allt frá þjónustufulltrúum til framkvæmdastjóra. Skömmu áður hafði öllu starfsfólki á skrifstofunni verið sagt upp störfum.

Ekki liggur fyrir hve mörg stöðugildi verður ráðið í, en fram hefur komið að einhver einhver störf verði lögð niður og öðrum útvistað.

Tímabundin ráðning ekki hvetjandi

Lára V. Júlíusdóttir, hæstaréttarlögmaður og sérfræðingur í vinnurétti telur líklegt að fólk setji ákveðinn vara á umsóknir sínar við svona aðstæður, sérstaklega áður en það segir upp starfi þar sem það er með þriggja mánaða uppsagnafrest og hefur áunnið sér réttindi í.

Lára V. Júlíusdóttir, hæstaréttarlögmaður og sérfræðingur í vinnurétti, telur líklegt …
Lára V. Júlíusdóttir, hæstaréttarlögmaður og sérfræðingur í vinnurétti, telur líklegt að störfin höfði frekar til reynsluminna fólks. Morgunblaðið/Frikki

Hún segir það vissulega gerast, að fólk sé ráðið í vinnu og svo áður en vinnan hefst eða skömmu eftir, þá sé því sagt upp með mánaðar uppsagnafresti. Þá hafi það kannski verið búið að segja upp gamla starfinu sínu með þriggja mánaða uppsagnafresti.

„Þá verður fólk fyrir beinu fjárhagslegu tjóni, það er alveg klárt.“

Lára segir auðvitað erfitt að vita hvernig fólk hugsar en telur að tímabundin ráðning til sex mánaða sé ekki til þess fallin að hvetja fólk til starfa.

Störfin höfði til reynsluminna fólks

Hún bendir á að samkvæmt kjarasamningi VR þá eigi fólk rétt á viku uppsagnafresti á fyrstu þremur mánuðum í starfi og mánaðar uppsagnafrest eftir þrjá mánuði, áður en þriggja mánaða uppsagnafrestur tekur við.

„Það er alltaf þannig ef þú ert að skipta um starf og hefur verið í starfi með löngum uppsagnafresti, þá ertu ekki bara að fórna uppsagnafrestinum, heldur ertu mögulega að fórna öðrum réttindum eins og veikindarétti sem þú ávinnur þér gagnvart viðkomandi vinnuveitanda, og hugsanlega einhverjum fríðindum sem tengjast þeim störfum. Þannig þú ert í sjálfu sér alltaf að taka einhverja áhættu þegar þú ert að fara í einu starfi í annað.“

Lára segir að vissulega sé um sérstakar aðstæður að ræða hjá Eflingu þar sem öllum á skrifstofunni hafi verið sagt upp til að hreinsa borðið, byrja upp á nýtt og jafnvel lækka laun starfsfólks. Við þær aðstæður sé hægt að spyrja sig hvaða væntingar fólk hafi til starfa hjá félaginu.

Þá bendir hún á að mörg störfin séu þess eðlis að gera megi ráð fyrir að háskólamenntað fólk sæki um, þar sem gerðar séu ákveðnar kröfur til umsækjenda. Hins vegar megi leiða að því líkur að tímabundin ráðning höfði frekar til reynsluminna fólks.

„Þegar þú ert að byrja á vinnumarkið þá þarftu einhverstaðar að byrja og þá ertu ekki búinn að ávinna þér neinn rétt. Þetta kannski höfðar frekar til þeirra sem hafa litla eða enga reynslu.“

Báðir aðilar geta gengið frá borði eftir samningstíma

Lára segir tvær aðferðir koma til greina þegar um tímabundna ráðningu er að ræða; annars vegar að fólk sé ráðið tímabundið til sex mánaða og það þá endurráðið ef samkomulag næst á milli aðila um áframhaldandi störf, og hins vegar að fólk sé ráðið á þeim kjörum að innan sex mánaða sé hægt að segja viðkomandi upp með eins mánaðar uppsagnafresti.

Tímabundinn samningur felur í sér að báðir aðilar geta gengið frá borði eftir samningstímann án frekari skuldbindinga. Starfsmaður á þá ekki rétt á uppsagnafresti og atvinnurekandi getur ekki gert frekari kröfur á starfsmanninn.

mbl.is