Sólveig Anna vill bara ráða fólk í hálft ár

Sólveig Anna er formaður Eflingar.
Sólveig Anna er formaður Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýir starfsmenn stéttarfélagsins Eflingar fá ekki ótímabundna ráðningarsamninga heldur verður einungis samið við þá til hálfs árs til að byrja með „meðan látið er reyna á nýtt skipulag“.

Þetta kemur fram á heimasíðu Eflingar

„Störf allra starfsmanna samkvæmt nýjum starfslýsingum og skipulagi undir breyttum ráðningarkjörum hefjast eins fljótt og auðið er. Allir nýir ráðningarsamningar verða tímabundnir til 6 mánaða meðan látið er reyna á nýtt skipulag,“ segir þar. 

Framkvæmdastjóri framfylgir breytingum nýrrar stjórnar

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði upp öllu starfsfólki félagsins upp í apríl eftir að hún tók við stjórn félagsins að nýju. Hún sagði af sér í nóvembermánuði í fyrra og sagði starfsfólk stéttarfélagsins hafa hrakið sig úr starfi. Hún fór svo aftur fram nokkrum mánuðum síðar og sigraði í formannskjörinu.

„Störf voru auglýst um Páskahelgina og unnið verður að nýráðningum í samstarfi við ráðningarstofu. Auglýst er staða framkvæmdastjóra, en framkvæmdastjóri fær í kjölfarið það verkefni að fylgja eftir þessum breytingum og eftir atvikum gera aðlaganir á þeim,“ segir á vef Eflingar. 

„Framkvæmdastjóri eða staðgengill hans upplýsir stjórn í samráði við formann um gang starfa og verkefna undir nýju skipulagi. Vænta má að komi til frekari aðlagana.“

Efling gerir ráð fyrir því að núverandi starfsmenn félagsins hafi vinnuskyldu undir óbreyttu fyrirkomulagi á uppsagnarfresti.

mbl.is