Skjálftinn heyrðist en fannst ekki í Raufarhólshelli

Raufarhólshellir er skammt frá upptökum skjálftans.
Raufarhólshellir er skammt frá upptökum skjálftans. Ljósmynd/Lava Tunnel

Samtals sextán voru staddir í eða við Raufarhólshelli þegar jarðskjálfti að stærð 4,7 reið þar yfir nú á fimmta tímanum í dag, en upptök skjálftans voru einmitt í Þrengslunum á um 8 km dýpi. Leiðsögumaður sem var rétt ókominn upp úr hellinum fann ekki fyrir skjálftanum en heyrði hins vegar í honum.  Aðrir sem voru ofanjarðar fundu hins vegar mjög vel fyrir skjálftanum. Lögreglan hefur nú lokað hellinum tímabundið meðan beðið er upplýsinga frá Veðurstofunni.

Jóna Sigurlína Pálmadóttir er leiðsögumaður hjá Lava tunnel sem rekur ferðaþjónustu í hellinum. Hún segir að samtals hafi fimm leiðsögumenn verið á staðnum auk 11 gesta, en flestir voru þeir hins vegar utan að komandi starfsmenn sem ætluðu að fara að vinna í hellinum. Fyrr í dag hafði verið nokkuð þétt koma ferðamanna, en Jóna segir að aðeins tveir ferðamenn hafi verið að gera sig klára fyrir að fara við bílastæðið þegar skjálftinn reið yfir.

„Það hristist allt mjög vel,“ segir hún spurð um kraftinn í skjálftanum. Segir hún að hristingurinn hafi verið talsvert meiri en hún hafi fundið í skjálftahrinunni á Reykjanesi í fyrra, en þá var hún oftast staðsett á höfuðborgarsvæðinu.

Starfsmennirnir sem voru á leið inn í hellinn fyrir skjálftann ákváðu að bíða aðeins með að fara niður, en Jóna segir að nokkru seinna hafi þeir þó haldið ofan í hellinn. Lögreglan hafi svo komið á staðinn og lokað hellinum fyrir umferð meðan beðið er upplýsinga frá Veðurstofunni og komu þá allir aftur upp.

mbl.is