Samstarf sem gæti bjargað lífum

Samstarf Neyðarlínunnar, Nova, Símans og Vodafone var undirritað í dag.
Samstarf Neyðarlínunnar, Nova, Símans og Vodafone var undirritað í dag. Ljósmynd/Aðsend

Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, segir í samtali við mbl.is að fjöldamörg dæmi séu um það að ekki hafi verið hægt að hringja í Neyðarlínuna eftir slys vegna þess að annað hvort hafi ekki verið símasamband á staðnum, eða aðeins símasamband hjá einu símafélaganna.

„Til dæmis banaslysið sem var í Ísafjarðardjúpi, þar sem maðurinn keyrði út í fjörðinn, þar var ekki reikisamningur á milli símafélagana. Maðurinn gat ekki hringt og ekki heldur sá sem kom á staðinn, það var þriðji aðilinn sem kom að sem var hjá öðru símafélagi og náði þannig inn,“ segir Þórhallur.

Neyðarlínan og farsímafyrirtækin Nova, Vodafone og Síminn kynntu í dag samstarf sín á milli þar sem símasendum verður fjölgað á fáförnum og afskekktum stöðum á Íslandi, og þeir samnýttir.

Neyðarlínan, Nova, Síminn og Vodafone tilkynntu nýtt samstarf.
Neyðarlínan, Nova, Síminn og Vodafone tilkynntu nýtt samstarf. Ljósmynd/Aðsend

Ríkið borgar

Sendarnir verða settir upp á stöðum þar sem símafyrirtækin hafa ekki haft viðskiptalegan hag af því að setja upp senda.

Ríkið borgar fyrir að koma upp aðstöðunni en símafyrirtækin undirrituðu samning um uppsetningu á fjórum sendum hvert. Þau munu svo öll hafa aðgang að hinum sendunum.

„Neyðarlínan úrskurðar um það hvar sé markaðsbrestur og við getum farið í þetta samkomulag. Við berum ábyrgð á því að farið sé eftir reglunum,“ segir Þórhallur en ásamt þeim tólf sendum sem búið er að gera samning um eru þrjátíu aðrir staðir til skoðunar.

Þórhallur segir að þeirra vegna skipti ekki máli hvort sendarnir sem settir eru upp séu 4g eða 5g. Samstarfið gæti því aukið innleiðingu 5g á Íslandi.

Allt símasamband mun verða betra á þessum svæðum, ekki eingöngu til þess að hringja í 112, heldur líka fyrir almenna notkun.

Hér má sjá kort af sendum sem búið er að …
Hér má sjá kort af sendum sem búið er að gera samning um að setja upp, en gulu punktarnir sýna svæði sem eru í skoðun fyrir uppsetningu. Ljósmynd/Aðsend

Fjögurra ára undirbúningur

„Þetta er búið að vera fjögurra ára brekka. Við þurftum að fá úrskurð hjá fjarskiptastofu og samkeppnisstofnun,“ segir Þórhallur.

Búið er að taka heilt ár að finna út úr tæknilegu hliðinni, sem er ekki einföld í framkvæmd.

 „Þetta er tæknilega mjög flókið, þetta er sérstakur staðall MOCN sem þurfti að innleiða hjá öllum símafélögunum.“

MOCN stendur fyrir Multi-Operator Core Networks þar sem sami sendir getur tengst kjarnakerfum allra farsímafélaganna og fjarskiptasendar og tíðni á afskekktum stöðum eru þannig samnýtt, samkvæmt tilkynningu frá Háskóla- iðnaðar og nýsköpunarráðuneytinu.

„Þetta mun verulega bæta fjarskiptaþjónustu og öryggi fyrir almenning,“ segir Þórhallur.

Einn af sendunum. Þessi er við Gjögur í Árneshreppi.
Einn af sendunum. Þessi er við Gjögur í Árneshreppi. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is