Endursýnt efni ekki ritskoðað hjá RÚV

Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri sjónvarps RÚV.
Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri sjónvarps RÚV. mbl.is/Styrmir Kári

Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri sjónvarps hjá RÚV, segir í samtali við mbl.is vandmeðfarið að ritskoða endursýnt sjónvarpsefni, en miðillinn hefur ekki mótað sér ákveðna stefnu þegar kemur að því. Dæmdur barnaníðingur sást á skjánum í gær.

RÚV hefur verið að endursýna sígildu spjallþættina Á tali hjá Hemma Gunn frá níunda áratug síðustu aldar. Einn af gestum Hemma í þættinum sem var sýndur í gær var Hallbjörn Hjartarson, þekktur sem kúreki norðursins og vinsæll fyrir kántrítónlist sína. Árið 2015 var Hallbjörn dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir að hafa misnotað tvo drengi, þar á meðal barnabarn sitt.

„Auðvitað er það leitt að heyra þegar það fer fyrir brjóstið á fólki þegar við sögu koma aðilar sem seinna meir hafa verið dæmdir eða orðið umdeildir. Við gerum mikið af því að endursýna eldra efni en við höfum ekki farið út í það að ritskoða, endurskoða, klippa til, eða taka út þætti með beinum hætti. Slík tilfelli eru og verða ætíð vandmeðfarin,“ segir Skarphéðinn.

„Ég er kominn á kreik á ný,“ söng Hallbjörn Hjartarson …
„Ég er kominn á kreik á ný,“ söng Hallbjörn Hjartarson í þættinum Á tali með Hemma Gunn. Hallbjörn var árið 2015 dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir að misnota tvo drengi. Skjáskot/ruv.is

Lýsir engri sérstakri afstöðu RÚV

„Það skal taka fram að þetta er þess konar þáttargerð að það er margt í boði í hverjum þætti. Öðru máli gegnir vitanlega um endurflutning á efni helgað viðkomandi aðilum, en þegar þetta er hluti af stærra samhengi er þetta farið að snúast um að ritskoða eða breyta efni, sem vitaskuld er alltaf viðkvæmara og vandmeðfarnara.“

Skarphéðinn segir líka að horfa verði til aldurs efnisins sem er sýnt. Einnig verður að meta það í hversu stóru hlutverki viðkomandi er í efninu. Í þessu tilfelli þá er Hallbjörn í mynd í tæpar sjö mínútur, en þátturinn er rúm klukkustund að lengd. Skarphéðinn segir það ekki lýsa neinni sérstakri afstöðu Ríkisútvarpsins að endursýna eldra efni.

Örugglega fleiri dæmi til

„Þetta er alltaf mjög viðkvæmt þegar kemur að notkun og miðlun á endursýndu efni hvort eigi að ritskoða það og höfum við ekki markað okkur þá afstöðu að eiga við endursýnt efni út frá því sjónarmiði. Það eru örugglega fleiri dæmi um það að í endursýndu efni komi fram aðilar sem hafa seinna fengið dóm fyrir eitt eða annað en við höfum ekki lagt okkur fram við að ritskoða það.“

Skarphéðinn segir að RÚV hafi ekki farið í þá vinnu að endurskoða safn sitt, eða eins og í þessu tilfelli að fjarlægja með einum eða öðrum hætti einn af gestum Hemma úr þrettán þátta seríu.

mbl.is