Dr. Margrét Einarsdóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, telur meiri líkur en minni á að Landsréttur komi til með að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms í máli Ingólfs Þórarinssonar gegn Sindra Þór Sigríðarsyni, verði því áfrýjað.
Sigurður Guðni Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður, er aftur á móti sannfærður um að Landsréttur snúi niðurstöðunni við. „Það er algjörlega rangt mat hjá dómaranum að Sindri hafi verið í góðri trú, enda snýst málið ekki um það heldur aðdróttanir og ærumeiðingar.“
Sindri var sýknaður af kröfum Ingólfs, sem betur er þekktur sem Ingó veðurguð, í meiðyrðamáli vegna ummæla þar sem Sindri sagði Ingólf hafa sofið hjá börnum.
„Samkvæmt dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu er lítið svigrúm til þess að takmarka tjáningarfrelsi ef efni á ríkt erindi í þjóðfélagsumræðu. Það hafa verið að falla dómar þar sem staðfest er að kynbundið ofbeldi sé efni sem á ríkt efni í þjóðfélagsumræðu,“ segir Margrét.
Hún bendir á að alþjóðleg vakning sé að eiga sér stað um þessi mál, og dómaframkvæmd hafi þróast í samræmi við það.
„Íslenskir dómarar eiga að líta til Mannréttindadómstólsins og mér sýnist hann vera að gera það í þessu máli.“
Margrét var meðal þeirra sem stóð fyrir málþingi um lagalega hlið MeToo hreyfingarinnar og ræddi hún þá, meðal annars, togstreitu tjáningarfrelsis og friðhelgis einkalífs í málum sem þessu.
„Það er áhugavert að dómarinn staðfestir að þetta sé staðhæfing um staðreynd, en ekki gildisdómur. Hann byggir þannig á að ummælin hafi verið réttlætanlega og Sindri í góðri trú um sannleiksgildi þeirra enda liggi fyrir gögn.“
Gera verður kröfur til dómara að leggja mat á fyrirliggjandi gögn og taka afstöðu til þeirra, hvort þau séu nægjanleg til þess að sá sem viðhafði ummælin, hafi verið í góðri trú um sannleiksgildi staðhæfingar sinnar, að sögn Margrétar.
Í þessu máli er er um að ræða sögur, Twitter-færslu og fréttir af því að Ingólfur hafi verið afbókaður á viðburði. Margrét bendir á að þó slíkt hefði ekki verið nægjanlegt til þess að Ingólfur yrði sakfelldur í refsimáli, þá gildi annað um einkamál.
Sigurður telur það varasamt að byggja niðurstöðu á að því að sá sem láti ummæli sem þess falla hafi verið í góðri trú. Enda séu samfélagsmiðlar í nútímasamfélagi óþrjótandi lind misgóðra upplýsinga.
Margrét telur það skipta máli að Sindri birti seinna færslu á Facebook þar sem hann útskýrði merkingu orða sinna.
Með því að nota hugtakið „barn“ hafi hann í verið að gagnrýna íslenska löggjöf. Nánar tiltekið að það sé ekki refsivert fyrir fullorðinn einstakling að sænga hjá börnum eftir að þau hafa náð fimmtán ára aldri.
Auður Björg Jónsdóttir, lögmaður Ingólfs, hefur gagnrýnt þessa forsendu dómsins, enda telur hún skjóta skökku við að litið sé til eftirfarandi skýringa á fyrirvaralausum ummælum.
Margrét telur þetta ekki óeðlilegt í ljósi þess að um nánari skýringu á ummælunum sé að ræða en ekki leiðréttingu. „Samkvæmt íslenskum lögum þá teljast einstaklingar börn, undir átján ára aldri.“
Sigurður telur að héraðsdómur hafi, með niðurstöðu sinni, afnumið friðhelgi einkalífs og æruvernd í þágu byltingar.
Margrét er á öndverðum meiði. „Ég er algjörlega ósammála því, ef það væru engin gögn til staðar þá væri þetta brot á friðhelgi einkalífs og ærumeiðing.“
„Æra manns eru einhver mestu verðmæti sem þú átt, menn verða að ganga varlega á að ráðast gegn æru manna,“ segir Sigurður
Þá bendir hann á að enginn dómari hafi áhuga á að fá mynd af sér á forsíðu fjölmiðla sem „sá sem sakfelldi“ í málum sem þessum, og hefur hann áhyggjur af því að slíkt hafi áhrif á niðurstöður og réttarþróun.