Arnari Grant sagt upp störfum hjá World Class

Arnari Grant hefur verið sagt upp störfum hjá World Class.
Arnari Grant hefur verið sagt upp störfum hjá World Class. mbl.is/Kristinn Magnússon

Björn Leifsson eigandi World Class segir í samtali við mbl.is að Arnari Grant hafi verið sagt upp störfum. Uppsögn hans kemur í kjölfar kæru Ara Edwalds, Hreggviðar Jónssonar og Þórðar Más Jóhannessonar á hendur Arnars og Vítalíu Lazarevu fyrir tilraun til fjárkúgunar, hótanir og brot gegn friðhelgi einkalífs.

Vísir greindi fyrst frá.

Björn Leifsson eigandi World Class.
Björn Leifsson eigandi World Class. mbl.is/Hari

Sjálfgefið þegar það er kæra

„Arnar var einkaþjálfari í Vatnsmýri og hafði heimild til þess á meðan engin kæra var í gangi. Nú er komin kæra þannig að það var sjálfgefið,“ segir hann.

Hann segir að uppsögn hans hafi tekið gildi strax í fyrradag. „Við erum með þá stefnu hjá okkur að starfsfólk þarf að sýna sakavottorð þegar það ræður sig í vinnu og við viljum ekki blanda fyrirtækinu í svona leiðindamál.“

Sama hefði gilt ef Vítalía hefði kært

Spurður út í það af hverju Arnari hafi verið sagt upp þar sem kæra jafngildir ekki sakavottorði segir Björn að hann hafi hleypt Arnari aftur til starfa með því skilyrði að hann fengi ekki á sig kæru.

„Þegar ég hleypti Arnari aftur í Vatnsmýrina þá sagði ég að hann gæti unnið á meðan engin kæra væri í gangi. Núna er komin kæra og ég vil ekki að mitt fyrirtæki dragist inn í þetta leiðindamál,“ segir hann. Aðspurður segir hann að hið sama hefði gilt ef Vítalía Lazareva hefði lagt fram kæru á hendur Arnari.

Arnar Grant gaf út yfirlýsingu í gær þar sem hann vísar á bug ásökunum þremenninganna.

mbl.is
Loka