„Áfengi er engin venjuleg neysluvara“

Anna Hildur Guðmundsdóttir er formaður SÁÁ. Hún sendi fjölmiðlum umrædda …
Anna Hildur Guðmundsdóttir er formaður SÁÁ. Hún sendi fjölmiðlum umrædda yfirlýsingu. Hákon Pálsson

Skaðleg neysla á áfengi eykst hjá hluta fólks þegar möguleikinn á að fá áfengi sent heim hvenær sem er sólarhringsins er fyrir hendi. Þetta er mat Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavanda (SÁÁ). 

Heimkaup hófu í vikunni að dreifa bjór, létt­víni og öðru áfengi í heimsend­ingu. Þá hafa stjórnvöld slakað á reglum um sölu áfengis að undanförnu.

Á skömmum tíma hefur aðgengi að áfengi stóraukist, með tilkomu netverslana sem afgreiða pantanir allan sólarhringinn alla daga vikunnar. Útsöluverð þeirra er einatt lægra en í ríkisreknum áfengisverslunum. Innan skamms geta íslenskir áfengisframleiðendur farið að selja vörur sínar á framleiðslustað,“ segir í yfirlýsingu frá SÁÁ. 

„Flóðgáttin sem hér hefur opnast gengur þvert gegn stefnu stjórnvalda í áfengis- og vímuvörnum. Sú stefna snýst um að takmarka og stýra aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum til að draga úr skaðlegum afleiðingum neyslunnar. Það er sterkasta vopnið í forvörnum.“

Allt að 20% í hættu

SÁÁ segja að skaðleg neysla áfengis hafi alvarleg áhrif á lýðheilsu og sé einn af helstu áhættuþáttunum sem leiða til heilsufarsvanda, ótímabærra dauðsfalla og þróunar langvinnra sjúkdóma. Þá kemur fram í yfirlýsingunni að talið sé að allt að 20% fullorðinna eigi á hættu að þróa með sér fíknisjúkdóm einhvern tímann á lífsleiðinni.

„Áfengi er engin venjuleg neysluvara, heldur löglegt vímuefni. Ef stjórnvöld ætla að láta af aðhaldssamri stefnu í áfengis- og vímuvörnum, þá verða þau að vera viðbúin afleiðingunum,“ segir í yfirlýsingu SÁÁ og jafnframt:

„Hjá 62% þeirra sem koma í fyrsta skipti í meðferð á sjúkrahúsinu Vogi er áfengi aðal vímugjafinn. Allt að 65% þeirra drekka daglega. Heimsending áfengis allan sólarhringinn er aðeins til þess fallin að stækka þennan hóp og auka vandann.

SÁÁ tekur ekki afstöðu til þess hver annast sölu áfengis. Hins vegar er ljóst að sú mikla fjölgun söluaðila sem nú blasir við skapar samkeppni um hylli áfengiskaupenda, stuðlar að verðlækkun og eykur þannig neysluna. Það er öfugþróun sem mun hafa skaðlegar afleiðingar.“

mbl.is
Loka