Var látið liggja í láginni

Frá björgunaraðgerðum eftir að nemendur í Stýrimannaskólanum í Eyjum fóru …
Frá björgunaraðgerðum eftir að nemendur í Stýrimannaskólanum í Eyjum fóru í land í eynni árið 1963. Ljósmynd/Sigurgeir Jónasson

Líklega kannast flestir Íslendingar við Surtseyjargosið árið 1963 og vita eitthvað um það merkilega sjónarspil þegar eyjan reis úr sæ.

Snýr þá þekkingin að jarðfræðinni sjálfri. Upp úr krafsinu kemur að áhugaverðir en jafnframt óhuggulegir atburðir áttu sér stað er tengjast gosinu en hafa ekki verið á margra vitorði eftir því sem frá líður.

Alþingismaðurinn Ásmundur Friðriksson sendir um helgina frá sér nýja bók sem ber heitið Strand í gini gígsins en um helgina er einmitt hin árlega Goslokahátíð haldin í Vestmannaeyjum. Þar er farið rækilega yfir tvo atburði þar sem menn úr Vestmannaeyjum voru verulega hætt komnir í námunda við náttúruöflin 1963 og 1964. Annars vegar fóru ungir menn út í Surtsey og hins vegar þegar Ágústa VE varð vélarvana nærri Syrtlingi, einni af fjórum neðansjávareldstöðvum Surtseyjargossins.

Bókin er að hluta til viðtalsbók og fékk Ásmundur menn sem upplifðu þessa atburði til að segja frá. Glettilega margir Eyjamenn kannast lítið eða jafnvel ekki við þessa atburði en á þessum árum báru Íslendingar erfiða lífsreynslu sjaldnast á torg.

Sunnudagsblaðið setti sig í samband við Ásmund og spurði hvers vegna hann hafi ráðist í að rita bókina?

„Það var nú þannig að skipstjórinn á Ágústu, Gaui á Landamótum, leigði herbergi hjá foreldrum mínum í húsi sem þau fluttu í árið 1964. Í gamla daga fjármögnuðu margir húsbyggingar með leigu að hluta til. Var það nokkuð algengt í Eyjum og foreldrar mínir leigðu sjómönnum í kjallaranum. Helgi Leifsson var einn þeirra en hann var sem ungur maður um borð í Ágústu þegar þetta gerðist. Hann talaði oft um þennan atburð þegar maður sat hjá honum í kvöldin sem peyji en síðar á lífsleiðinni urðum við Helgi góðir vinir.

Ljósmynd/Sigurgeir Jónasson

Fyrir um það bil tuttugu og fimm árum síðan fór ég að tala um þetta einhverri alvöru við Friðrik Ólaf Guðjónsson. Það hafði verið lítið um þetta rætt í hans fjölskyldu og hann þagði sjálfur yfir þessu. Málið var bara látið liggja í láginni eins og margt annað sem gerðist á þessum árum. Nánast engar fréttir voru heldur birtar af þessu atviki. Hann átti svolítið erfitt með að opna sig um þetta en sló til fyrir þremur eða fjórum síðan. Í kjölfarið fór ég að setja þetta niður á blað,“ segir Ásmundur en ýmislegt fleira er að finna í bókinni þótt atburðirnir tveir sem áður voru nefndir séu þeir sem mest fer fyrir.

Þáttur Friðriks í þessari bók er mjög merkilegur og ég segi nokkuð frá lífshlaupi hans. Friðrik og Biddý eiginkona hans samþykktu að ræða við mig en komið er inn á fleiri atvik eins og þegar hann var um borð þegar Bára KE 3 strandaði. Það var lífreynsla fyrir ungan sjómann og ég held að hollt sé fyrir marga að lesa þetta til að fá tilfinningu fyrir því hvernig lífsbaráttan var árið 1964 og fram undir 1970. Hún var hörð. Fólk í Eyjum bjó við að sækja vatn í brunna og rottur voru á milli veggja. Nokkuð sem við í dag gætum aldrei búið við.

Bókin er að einhverju leyti saga þessa fólks Friðriks og Biddýar. Ungur maður sem lendir í miklum hremmingum og hafði lent í tveimur sjóslysum áður en hann fékk bílpróf.“

Nánar er rætt við Ásmund um bókina í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »