Mál Helga Magnúsar Gunnarssonar vararíkissaksóknara er til skoðunar hjá ríkissaksóknara. Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari staðfestir þetta í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is þess efnis. Hún segist ekki geta rætt málið nánar að svo stöddu.
Málið er sprottið upp frá Facebook-færslu Helga þar sem hann sagði hinsegin hælisleitendur „auðvitað ljúga“, en í færslu sinni vísaði hann til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem dómurinn dæmdi að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hefðu ranglega ekki tekið kynhneigð manns trúanlega, en stefnandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi árið 2019 sökum kynhneigðar.
Í færslu sinni spurði Helgi einnig að því hvort einhver skortur sé á samkynhneigðum karlmönnum hér á landi.