Formenn félaga innan SGS harma afsögn Drífu

Drífa Snædal, fyrrverandi forseti ASÍ
Drífa Snædal, fyrrverandi forseti ASÍ Ljósmynd/Aðsend

Formenn félaga innan Starfsgreinasambands Íslands harma þær aðstæður sem urðu til þess að Drífa Snædal, fyrrverrandi forseti ASÍ, sá sig knúna til afsagnar. 

„Það á enginn að þurfa að upplifa sig við þannig aðstæður á sínum vinnustað. Verkalýðshreyfingin á að vera fyrirmyndar vinnustaður og verður að koma í veg fyrir að starfsfólk hennar upplifi sig eins og Drífa gerði,“ segir í yfirlýsingu frá sambandinu. 

Þar segir jafnframt að Drífa hafi verið róttæk, sýnileg og að hún hafi fylgt áherslum Alþýðusambandsins vel. Drífa hafi verið hreyfingunni til sóma á allan hátt. 

Brotið ýmsa múra

Hún er ósérhlífin, vinnusöm og með ótrúlegum styrk hefur hún átt stóran þátt í brjóta ýmsa múra sem hefur skilað sér meðal annars í bættum lífskjörum, einkum þeirra sem minnst hafa, auknu jafnrétti og betra samfélagi.“

Þau sem standa að baki yfirlýsingunni eru Arnar G. Hjaltalín, Björn Snæbjörnsson, Eyþór Þ. Árnason og Finnbogi Sveinbjörnsson. Einnig þau Guðmundur Finnbogason og Guðrún Elín Pálsdóttir, Halldóra S. Sveinsdóttir, Hrund Karlsdóttir og Magnús S. Magnússon. Vignir S. Maríasson og Þórarinn Sverrisson. 

Formennirnir þakka Drífu fyrir farsælt og gefandi samstarf síðastliðin tíu ár. „Fyrst með flestum okkar sem framkvændastjóri SGS og síðustu fjögur ár sem forseti ASÍ.

mbl.is