Íslendingur ákærður fyrir stórfellda líkamsárás

Meint árás átti sér stað í Lundúnaborg árið 2018 fyrir …
Meint árás átti sér stað í Lundúnaborg árið 2018 fyrir utan skemmtistað í Soho hverfi borgarinnar. AFP

Íslendingur á þrítugsaldri hefur verið ákærður af héraðssaksóknara fyrir stórfellda líkamsárás á annan Íslending í Lundúnaborg sem á að hafa átt sér stað í nóvember 2018, fyrir utan skemmtistaðinn Freedom Bar í Soho hverfi borgarinnar. 

Þetta kemur fram í frétt Fréttablaðsins.

Maðurinn er ákærður fyrir að hafa veist að landa sínum og ýtt við honum með þeim afleiðingum að hann skall í götuna og hlaut höfuðkúpubrot, blæðingu inn á heila og brest í beinhimnu. 

Missti heyrn, lyktar- og bragðskyn

Brotaþoli missti í kjölfarið bragðskyn auk þess sem lyktarskyn hans skertist. Þá missti hann heyrn á hægra eyra. 

Þess er krafist að meintur árásarmaður verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. 

Fréttablaðið vísar í ákæruna og segir að þar megi einnig finna einkaréttarkröfu brotaþola, en hann krefjist sex milljóna króna í miskabætur. 

Málið verður þingfest í héraðsdómi Reykjaness þann 23. ágúst. 

mbl.is