Hlaupa fyrir Mikael

Hulda Dröfn Jónsdóttir og börn hennar, Mikael Smári og Anna …
Hulda Dröfn Jónsdóttir og börn hennar, Mikael Smári og Anna Rakel. Hulda og Anna Rakel ætla að hlaupa fyrir Mikael í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka í ár.

Hulda Dröfn Jónsdóttir ætlar að hlaupa 10 kílómetra fyrir son sinn, Mikael Smára Evensen, í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka sem fram fer um næstu helgi.

Mikael er 10 ára gamall drengur en hann hrjáist af taugahrörnunarsjúkdómnum ataxia telangiecstasia sem leggst meðal annars á taugakerfi og ónæmiskerfi líkamans.

Sjúkdómurinn einkennist af vaxandi óstöðugleika við hreyfingar (ataxia) sem leiðir til alvarlegrar færniskerðingar, eins og segir á vef Ráðgjafar– og greiningarstöðvarinnar.

Langaði að vera með í ár

„Það hafa svo margir hlaupið fyrir hann undanfarin ár þannig að ég ætlaði bara að vera með,“ segir Hulda en fleiri fjölskyldumeðlimir Mikaels munu einnig hlaupa fyrir hann, þar á meðal frænka hans, Valdís Anna Jónsdóttir, sem er í forsvari fyrir Styrktarsjóð Mikaels, Anna Rakel 12 ára gömul systir Mikaels, og afi hans og amma.

Hulda og Mikael búa í bænum Greve í Danmörku en koma til Íslands á fimmtudaginn. Hulda segir að Mikael verði með ættingjum sínum á hliðarlínunni á meðan Reykjavíkurmaraþoninu stendur.

Hann verður svo með móður sinni í Skemmtiskokkinu en Mikael notast við hjólastól.

Leikur í LEGO-auglýsingu

Mikael er í sérskóla úti í Danmörku. Að sögn móður hans er stærðfræði uppáhaldsfag Mikaels í skólanum en heima fyrir hefur hann einkar gaman að LEGO og hefur meira að segja verið módel fyrir fyrirtækið.

„Hann hefur verið módel fyrir LEGO í tvær auglýsingar og er nú að fara að leika í LEGO-auglýsingu síðar í mánuðinum. Hann fær vel borgað fyrir það, sem hann nýtir síðan helst í LEGO, svo þetta kemur vel út fyrir fyrirtækið.“

mbl.is
Loka