„Þetta er eitthvað sem við munum læra af“

Búnaður Herjólfs slapp við tjón en töluverðar skemmdir urðu á …
Búnaður Herjólfs slapp við tjón en töluverðar skemmdir urðu á tveimur bílum. Samsett mynd

Atvik líkt og það sem varð í Herjólfi á sunnudag þegar tvö ökutæki krömdust undir bílalyftu skipsins, hefur ekki komið fyrir áður.

Þetta segir Hörður Orri Grettisson, framkvæmdastjóri Herjólfs, í samtali við mbl.is. Búnaður skipsins slapp alveg við tjón, að hans sögn.

Líkt og fram kom í gær fór bílalyfta Herjólfs niður öðrum megin er skipið var að fara frá Landeyjarhöfn á sunnudagskvöld með þeim afleiðingum að tveir bílar krömdust undir henni.

Hlífar komnar yfir takkana

Rekist var í takka í brú skipsins sem varð til þess að lyftan fór niður. Þegar hefur verið gripið til ráðstafana vegna óhappsins.

„Það er búið að setja hlífar yfir þessa ákveðnu takka, þannig að þetta á ekki að geta komið fyrir aftur,“ segir Hörður.

„Auðvitað er leiðinlegt að svona óhapp skuli koma fyrir en sem betur fer urðu engin slys á fólki eða dýrum og þetta er eitthvað sem við munum læra af og höfum nú þegar gert.“

Hvað tjón á bílunum varðar segir Hörður að ákveðnir verkferlar hafi farið í gang.

„Við erum í samskiptum við tryggingafélagið okkar og ég sjálfur kom mér í samband við eigendur þessara ökutækja og ég held að það sé í góðum farvegi. Félagið er vel tryggt, þannig að tryggingarnar munu grípa inn í þessi tjón eins og önnur.“

mbl.is