Hugsi yfir hómófóbískum nasistaáróðri

Aðalbjörn Jóhannsson, sem er hinsegin, segir að sér hafi brugðið …
Aðalbjörn Jóhannsson, sem er hinsegin, segir að sér hafi brugðið við að sjá límmiðann. Ljósmynd/Aðalbjörn Jóhannsson

„Þeir eru farnir að færa sig upp á skaftið,“ segir Aðalbjörn Jóhannsson um þá sem hafa verið að dreifa nasistaáróðri, en Aðalbjörn gekk fram á límmiða með hómófóbískum skilaboðum við Dalakofann í Reykjadal í Þingeyjarsveit í gær.

Aðalbjörn býr á svæðinu og var nýkominn úr vinnu að bíða eftir eiginmanni sínum þegar hann rak augun í límmiðann, þar sem varað er við ógn sem stafi af hinsegin fólki. 

mbl.is greindi frá því í gærkvöldi að nýnasistatákn hefðu fundist á skilt­um Hinseg­in daga við Aust­ur­völl í Reykja­vík.

„Eins og sé verið að reyna að ná til barna og ungmenna“

Límmiðinn er merktur samtökunum Norðurvígi en á vef þeirra segir meðal annars að samtökin „noti áróður til að veita almenningi jákvæða ýmind [sic] af Norrænu mótstöðuhreyfingunni og þjóðernis félagshyggju [sic...“

Aðalbjörn segir sláandi að sjá hversu litríkar og grípandi merkingarnar eru og segist fá á tilfinninguna að þeir sem dreifi áróðrinum séu að reyna að ná til barna og ungmenna.

Aðalbjörn vinnur mikið með börnum en hann er tómstunda- og æskulýðsfulltrúi hjá Þingeyjarsveit.

„Vill ekki trúa að þetta sé einhver nálægt manni“

„Maður vill alltaf halda að þetta sé í gangi annars staðar en í eigin samfélagi, en maður veit það ekki fyrir víst,“ segir Aðalbjörn sem er hugsi yfir málinu.

„Einnig veit maður ekki hvað menn eru fljótir að fara frá því að taka þátt í einhverri umræðu, fara að trúa henni og leiðast svo út í einhverjar aðgerðir sem þeir ætluðu sér ekki í fyrstu,“ bætir Aðalbjörn við.

Samtökin segjast markvisst dreifa áróðri gegn til dæmis innflytjendum og fólki innan hinsegin samfélagsins. Á heimasíðu þeirra segir að áróðri sé meðal annars dreift í gegnum heimasíðuna og í útvarpi, bæklingum, límmiðum, veggspjöldum og fleira.

„Ég hef ekki tekið eftir því að þessi hópur beiti sér beint gegn hinsegin samfélaginu en þeir eru mjög opnir með það að þeir vilji losna við okkur og maður veltir því fyrir sér hvenær einhver verður nógu vitlaus til að taka málin í eigin hendur, finna út hvar fólk býr og ganga lengra,“ heldur Aðalbjörn áfram.

-Hann segist þó ekki vilja dramatísera málið um of en segir jafnframt að þessi skilaboð hafi áhrif á öryggistilfinninguna. Aðalbjörn hefur ekki tilkynnt málið til lögreglu en hafði samband við staðarhaldara í gær sem er að skoða eftirlitsmyndavélar á svæðinu.

Finnur fyrir minni fordómum í litlum samfélögum

Aðalbjörn segist þekkja staðarhaldara og liggi ljóst fyrir að hann sé ekki ábyrgur fyrir merkingunum.

Aðalbjörn vill einnig taka fram að hann hafi fundið fyrir stuðningi frá fólki í sínu nærumhverfi og að viðbrögðin séu á þá leið þetta særi réttlætiskennd fólks á svæðinu.

„Mér bregður fyrst og fremst við að sjá þetta í mínu nærumhverfi, í svona litlu samfélagi. Ég hef almennt fundið fyrir minni fordómum hér dags daglega en þegar ég bjó til dæmis í Reykjavík og á Akureyri, svo þetta kom á óvart.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert