Tillögurnar muni bæta stöðuna mikið

Skúli kynnti tillögurnar í dag.
Skúli kynnti tillögurnar í dag. mbl.is/Hákon

Skúli Helga­son, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður stýri­hóps borg­ar­inn­ar í upp­bygg­ingu leik­skóla, telur þær tillögur sem borgarráð kynnti í dag vegna leikskólavandans til þess fallnar að bæta stöðuna mikið. 

Skúli kynnti til­lög­urnar í Ráðhús­inu í dag.

„Við erum fyrst og fremst með þessum tillögum að reyna að koma til móts við foreldra sem höfðu réttmætar væntingar um að þeir kæmust með börnin inn í haust. Við byggðum okkar tímaáætlun á þeirri spá sem skóla- og frístundasvið gaf út miðað við þær framkvæmdir sem voru í gangi. Samkvæmt þeim átti að vera hægt að taka á móti 12 mánaða börnum í haust.

Svo hafa ýmsir þættir orðið til þess að tefja það plan en markmiðið er áfram það sama. Við viljum koma börnum frá 12 mánaða inn í leikskólanna og þurfum að finna nýjar leiðir til viðbótar við þær sem hafa þegar verið samþykktar. Þessar tillögur eru innlegg inn í þá vinnu,“ segir Skúli í samtali við mbl.is

Mönnunarmálin í greinagerð með tillögum

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sögðust í samtali við mbl.is eftir kynninguna sakna tillagna um mönnunarvandann, en fulltrúar flokksins höfðu sjálfir lagt fram tillögur á vandanum.

Spurður um mönnunarvandann segir Skúli að hann sé vel reifaður í greinagerðinni sem fylgir með tillögunum.

„Þar er sérstakur kafli um mönnunarmálin. Það eru mjög margar aðgerðir í gangi á sviðinu um þau mál. Þetta er meiri vinna varðandi mönnun en við höfum séð lengi.“

Biðlistabætur stórt mál

Hvað varðar biðlistabætur til foreldra sem verða fyrir tekjumissi því þeir þurfa að vera heima með börnin sín segir Skúli það vera í skoðun en það sé mjög stórt mál sem geti haft miklar afleiðingar.

„Við þurfum að skoða fordæmið og jafnræði gagnvart öðrum umsækjendum um grunnþjónustu. Eiga þeir þá sama rétt eins og í þessu tilviki? Þessari tillögu er ekki hafnað, hún fer í rýni og skoðun og fær umsögn hjá fjármálaskrifstofunni.“

Nákvæmur fjöldi barna háður viðbrögðum foreldra

Skúli segir nákvæmar tölur um hversu mörg börn fái leikskólapláss vegna þeirra aðgerða sem voru samþykktar í dag segir Skúli það vera háð viðbrögðum foreldrahópsins í heild.

„Hópurinn er mjög stór, mörg hundruð foreldrar hafa sótt um pláss. Við þurfum að heyra hvort þau úrræði sem við höfum boðið eins og að nýta húsnæði borgarinnar, Korpa, leikskólinn Bakki, frístundaheimili o.s.frv séu úrræði sem fólk vill þiggja. Ef svo er þá getur það fjölgað plássunum um 350-400,“ segir Skúli.

Hann segir að á biðlista eftir leikskólaplássi séu um 665 börn sem eru 12 mánaða og eldri. Spurður hvort það þýði þá að tæpur helmingur þessar barna hljóti ekki leikskólavist með þessum tillögum segir Skúli:

„Það má ekki gleyma því að við erum að opna 550 ný pláss bara á þessu ári. Þú verður að leggja það saman til að fá heildarmyndina“.

mbl.is