Vill að mönnun spítalans verði tekin fyrir

Ásmundur Friðriksson, annar varaformaður velferðarnefndar Alþingis.
Ásmundur Friðriksson, annar varaformaður velferðarnefndar Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og annar varaformaður velferðarnefndar, hefur óskað eftir fundi með nefndinni þar sem mönnun Landspítalans verði tekin fyrir. 

Hann segir að bráðavandi sé á Landspítalanum og mikilvægt sé að bregðast við. 

Á fundinum eigi að veita upplýsingar um stöðu á mönnun og launum í heilbrigðisstofnunum nágrannalanda til samanburðar. 

Launakjör valdi ekki manneklu

„Við þurfum að leysa úr því vandamáli sem eru þau ótrúlegu þyngsli sem hvíla á Landspítalanum núna á þriðja ár, en um langan tíma hefur verið þar ákveðin brekka sem þarf að vinna úr," segir Ásmundur í samtali við mbl.is. 

Hann segir að mannekla sé megináskorunin sem spítalinn standi fyrir, og að stór hluti vandans liggi í því að margir fari að vinna á heilbrigðisstofnunum erlendis.

Að hans mati séu launakjör ekki að flæma starfsmenn frá Landspítalanum, heldur telur hann upp vandamál á borð við álag og það að margir sérfræðilæknar fái ekki samninga. 

Vöntun á hjúkrunarfræðingum

Enn fremur hafi aðstæður skapast sem þyngja róðurinn og segir hann að mesta manneklan sé meðal hjúkrunarfræðinga.

„Við höfum undanfarin ár verið að gera kjarasamninga um vinnustyttingu sem kemur þannig út að vöntun á hjúkrunarfræðingum hefur bara orðið meiri eftir breytinguna.

Þetta er uppsafnaður endalaus vandi og svo lendum við í heimsfaraldri sem þyngir bara álagið þannig að það verður óbærilegt.“

Vonar að ný stjórn leiti lausna

Ásmundur segist vona að ný stjórn á Landspítalanum komi fram með tillögur við því hvernig spítalinn geti sjálfur brugðist við vandanum og enn fremur feli þær í sér hvernig þingið geti komið til móts við vandann. 

„Hér þurfum við að slá pólitískar keilur fyrir fólkið í landinu og koma þessu kerfi í lag, en það er auðvitað ofsalegt verkefni.

Þetta þarf að vera samvinna þar sem þetta er mikilvægt fyrir alla í landinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert