Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að síðasta mæling Hagstofunnar sé mjög jákvæð og vonandi áfangasigur í baráttunni gegn verðbólgu þó ávallt sé erfitt að lesa sérstaklega í punktmælingu á verðbólgu eins og birt var í dag.
Samkvæmt nýbirtri verðbólgumælingu Hagstofu Íslands hjaðnar verðbólga lítillega á milli mánaða, þvert á spár Seðlabanka Íslands og greiningadeilda viðskiptabankanna.
„Við erum að sjá verulega hjöðnun í húsnæðisverðbólgu sem staðfestir ýmsar aðrar vísbendingar um að ró sé að færast á fasteignamarkaðinn. Það sem mér finnst þó enn jákvæðara er að vísitala verðbólgu án húsnæðis stendur nær í stað á milli mánaða sem vonandi gefur vísbendingar um verðbólga sé ekki að breiða jafn hratt úr sér í efnahagslífinu og við óttuðumst.“
Spurður hvort að hann líti á mælinguna sem áfangasigur eða að tímabili vaxandi verðbólgu sé að ljúka segir Ásgeir: „Þetta er auðvitað bara ein mánaðarmæling en þetta eru samt sem áður fyrstu merki um árangur í baráttunni gegn verðbólgu og þannig áfangasigur.“ Ásgeir bætir við að mælingin gefi einnig góð fyrirheit um þróun annarra undirliða í verðbólgumælingum.
Viðbrögð á skuldabréfamarkaði hafa ekki staðið á sér og lækkuðu ávöxtunarkröfur á óverðtryggðum ríkisskuldabréfum skarpt í morgun. Ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisskuldabréfa stendur nánast í stað.