Kristín Linda nýr formaður samninganefndar

Kristín Linda Árnadóttir.
Kristín Linda Árnadóttir. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, verður nýr formaður samninganefndar ríkisins.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Þessa dagana er unnið að því að ljúka skipan samninganefndarinnar fyrir komandi kjaraviðræður. Gildandi kjarasamningar á almennum vinnumarkaði renna flestir skeið sitt á enda á síðasta ársfjórðungi þessa árs en flestir kjarasamningar opinberra starfsmanna gilda til loka marsmánaðar.

Bandalög opinberra starfsmanna hafa óskað eftir að kjaraviðræður hefjist sem fyrst og er skipan nýs formanns liður í að undirbúa viðræðurnar.

Gert er ráð fyrir að aðrir í nefndinni komi úr röðum starfsfólks kjara- og mannauðssýslu ríkisins (KMR) og ráðuneyta og eftir atvikum frá stofnunum ríkisins með þekkingu á kjarasamningsumhverfi stærstu starfsstétta hins opinbera, segir í tilkynningunni.

mbl.is