Vísa frá erindi um ummæli Sigurðar Inga

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Vigdís Häsler Sveinsdóttir.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Vigdís Häsler Sveinsdóttir. Samsett mynd

Forsætisnefnd Alþingis hefur vísað frá máli sem sneri að ummælum sem Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar, lét falla um Vigdísi Häsler, framkvæmdastjóra Bændasamtakanna, á Búnaðarþingi í mars. Var því haldið fram að ummælin hefðu ekki verið í samræmi við siðareglur fyrir alþingismenn.

Ekki hefur fengist upplýst hvað það var nákvæmlega sem Sigurður Ingi sagði og hefur hann ekki viljað tjá sig um það. Af yf­ir­lýs­ingu sem Vig­dís­ sendi frá sér í mars má ætla að um­mæl­in hafi snú­ist um húðlit eða kynþátt hennar.

Segir í bréfi frá Birgi Ármannssyni, formanni forsætisnefndar, að nefndinni hafi ekki borist aðrar upplýsingar um málavexti en komið hafa fram í fjölmiðlum. Þar hafi komið fram að Sigurður Ingi hafi beðist afsökunar á ummælunum sínum án þess þó að lýsa þeim nánar.

Auk þess hafi Vigdís lýst því yfir að hún hafi átt fund með Sigurði þar sem hann hafi borið fram afsökunarbeiðni sem hún hafi meðtekið.

Mat nefndin það því sem svo að erindið gæfi ekki tilefni til frekari umfjöllunar og að vísa bæri því frá.

Mótmæltu ákvörðuninni

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, og Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstri grænna, ásamt áheyrnarfulltrúunum Andrési Inga Jónssyni, þingmanni Pírata, og Þorbjörgu Gunnlaugsdóttur, þingmanni Viðreisnar, lögðu þó fram sameiginlega bókun þar sem þau mótmæltu ákvörðuninni um að vísa frá erindinu.

„Hinn eðlilegi farvegur málsins hefði verið að fá ráðgefandi siðanefnd sem fyrst til að leggja mat á málið, og hvort um brot væri að ræða og gefa álit sitt að því loknu, frekar en að vísa erindinu nú frá á grundvelli takmarkaðra upplýsinga,“ segir í bókunni.

Þá segir að málsmeðferðin fari gegn þeim tilgangi og markmiðum siðareglna fyrir alþingismenn að efla tiltrú og traust almennings á Alþingi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert