Björgunarsveitir í viðbragðsstöðu á Austurlandi

Frá Neskaupsstað þar sem björgunarsveitin Gerpir er til húsa.
Frá Neskaupsstað þar sem björgunarsveitin Gerpir er til húsa. mbl.is/Golli

Sveinn Halldór Oddsson Zoëga, formaður svæðisstjórnar björgunarsveita á Austurlandi, segir nóttina hafa verið rólega hjá björgunarsveitum á Austurlandi en gerir ráð fyrir töluverðri fjölgun útkalla í dag. 

Tvö útköll hafa borist vegna foks á Austurlandi það sem af er morgni en gert er ráð fyrir að mesta óveðrið skelli á um hádegi. 

Það versta væntanlegt á hádegi

„Við erum bara eins tilbúin og við getum verið,“ segir Sveinn í samtali við mbl.is en hann gerir ráð fyrir mun fleiri útköllum eftir því sem líður á daginn.

Sveinn segist ekki hafa séð marga á ferli það sem af er degi.

„Það virðist ekki vera, við fórum einn hring um bæinn og fólk var að huga að ruslatunnunum sínum eins og gengur. En ég held að það séu ekki margir á ferli á milli bæja, ég að minnsta kosti ekki,“ segir Sveinn og bendir á að gert sé ráð fyrir kólnandi veðri síðdegis. 

Sveinn segist ekki hafa orðið var við marga ferðamenn þótt hann hafi frétt af nokkrum húsbílum á tjaldstæði Neskaupstaðar. Þeir hafi þó verið farnir þegar hann kom á vettvang.

mbl.is