Stærstur hluti skotvopnanna löglega skráður

Blaðamannafundur vegna hryðjuverkarannsóknar. Munir sem lögreglan lagði hald á.
Blaðamannafundur vegna hryðjuverkarannsóknar. Munir sem lögreglan lagði hald á. mbl.is/Hólmfríður María

Stærstur hluti þeirra skotvopna sem fundust í aðgerðum lögreglunnar vegna rannsóknar á meint­um und­ir­bún­ingi hryðju­verka hér á landi voru verksmiðjuframleiddar byssur og voru jafnframt löglega skráðar. Þetta var meðal þess sem kom fram á upplýsingafundi vegna málsins.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, ítrekaði á fundinum það sem áður hafði komið fram að tugir skotvopna hefðu fundist í aðgerðunum. Þá hefðu sum vopnanna verið hlaðin.

Mikið hefur verið rætt um að hluti vopnanna hafi verið þrívíddarprentuð, en Grímur sagði að í raun væru aðeins örfá þeirra skotvopna sem hefðu verið haldlögð slík vopn. Meirihlutinn væri verksmiðjuframleidd vopn, en mörgum þeirra hefði verið breytt þannig að byssurnar væru hálfsjálfvirkar. Þá hefði lögreglan einnig lagt hald á hljóðdeyfa, hnífa og sveðjur.

Meðal muna sem lögreglan lagði hald á.
Meðal muna sem lögreglan lagði hald á. mbl.is/Hólmfríður María

Sveinn Ingi­berg Magnús­son, yf­ir­lög­regluþjónn hjá embætti héraðssak­sókn­ara,  sagði á fundinum að ekki væri efast um að hægt væri að framleiða hættuleg vopn með þrívíddartækni og að meðal verkefna lögreglunnar væri að finna út það magn íhluta sem hefðu verið prentaðir út í prenturunum. Sagði hann að að hluta væru byssurnar þrívíddarprentaðar og að hluta hefur verið notaðir í þær verksmiðjuframleiddir íhlutir.

Spurður hvort búið væri að sannreyna að um raunveruleg skotvopn væri að ræða sem virkuðu sagði Grímur að lögreglan hefði ekki enn prófað þau. Á hinn bóginn hefði lögreglan rökstuddan grun um að þau virkuðu. Hins vegar væru þessi vopn ekki prófuð á sama hátt og hefðbundin skotvopn, heldur þyrfti að gæta meiri varúðar.

Hægt er að sjá upptöku af fundinum hér að neðan.

mbl.is