Það versta gengið yfir um miðnætti

Skipið Jón Kjartanson hefur verið bundið niður við höfnina á …
Skipið Jón Kjartanson hefur verið bundið niður við höfnina á Reyðarfirði. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Illviðrið sem nú gengur yfir landið er í hámarki. Fljótlega fer þó að draga úr veðurofsanum sem er verstur austan til á landinu.

„Þetta er enn í hámarki en stutt í að það fari að draga úr því,“ segir Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

„Veðrið er verst á austurhelmingi landsins. Þar er víða stormur.“

Spár gengið eftir í grófum dráttum

Hann segir spár hafa gengið eftir í grófum dráttum en farið verði betur yfir það á morgun.

„Þetta veður er að þokast austur af þannig það versta fer víða að verða búið, til dæmis á Norðausturlandi,“ segir Haraldur. Líklega megi búast við að hið versta verði yfirstaðið um miðnætti í kvöld.

„Í fyrramálið verður hvassviðri austan til en ekkert viðvörunarveður. Svo lægir smám saman á morgun.“

mbl.is