Menning innan skólabekkja skoðuð vegna eineltis

Börn á skólalóð.
Börn á skólalóð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þegar tekist er á við einelti þarf að horfa á skólasamfélagið í heild sinni og menninguna sem þrífst innan skólabekkja sem leyfa eineltinu að þrífast. Þetta segir Sigrún Garcia Thorarensen, formaður fagráðs eineltismála í grunn- og framhaldsskólum.

Í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni sagði hún í að dag sé ekki bara horft á þolendur og gerendur þegar um eineltismál er að ræða. „Þetta snýst meira um menninguna núna og bekkjarárganginn í heild sinni,“ sagði hún.

Hún kallaði eftir öflugri forvörnum, þar á meðal sjálfstyrkingarnámskeiðum fyrir börn, og að þau átti sig á því að það sem fer á netið verður þar alltaf og hverfur ekki. Einnig kallaði hún eftir samræmdum eineltisáætlunum fyrir allt landið í stað þess að mismunandi áætlanir séu í hverjum skóla fyrir sig.

10 til 12 mál á ári

Aðspurð sagði Sigrún fagráðið fá á sitt borð 10 til 12 eineltismál á ári og að engin sérstök fjölgun hafi orðið undanfarin ár. Þau séu misjöfn eins og þau séu mörg en að í langflestum tilfellum hafi orðið trúnaðarbrestur á milli heimilis og skóla.

Hún nefndi að fagráðið taki ekki að sér mál nema búið sé að afgreiða þau innan skóla eða hjá skólaskrifstofu. Einnig geta foreldrar vísað málum til ráðsins ef þeim finnst skólinn eða sveitarfélagið hafa gerst sek um vanrækslu.

Telja sig ekki bera sömu ábyrgð

Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri miðlalæsis hjá fjölmiðlanefnd, sagði auðvelt að leggja fólk í einelti á samfélagsmiðlum nafnlaust. Miðað við rannsóknir þeirra séu 40% barna undir 18 ára aldri með nafnlausa falska reikninga sem hafa verið notaðir í þessum tilgangi. „Börnunum finnst þau ekki bera sömu ábyrgð á gjörðunum því þetta er ekki gert í þeirra nafni,“ sagði hann og bætti við að áreitið frá ókunnugum á samfélagsmiðlum sé gríðarlega mikið.

Skúli sagði mikilvægt þegar rætt er við börnin um eineltismál að þau átti sig á því af hverju er verið að setja boð og bönn, til dæmis í tengslum við notkun á samfélagsmiðlum.

mbl.is