Telur forsendur breyttar í hryðjuverkamáli

Sveinn Andri Sveinsson telur að mat geðlæknis á mönnunum sem …
Sveinn Andri Sveinsson telur að mat geðlæknis á mönnunum sem grunaðir eru um skipulagningu á hryðjuverkum breyti forsendunum um gæsluvarðhald yfir þeim. Ljósmynd/Aðsend

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður annars mannsins sem grunaður er um skipulagningu hryðjuverka, segir breyttar forsendur fyrir gæsluvarðhald í kjölfar mats geðlæknis á mönnunum. Gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna rennur út í dag.

Sveinn Andri segir mennina hafa fyrst verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna rannsóknarhagsmuna og svo síðar á grundvelli almannahagsmuna.

„Þá lá til grundvallar þeim úrskurði héraðsdóms og landsréttar hættumat sem greiningadeild ríkislögreglustjóra hafði unnið. Almennt í svona greiningum er stór þáttur mat á geðrænu ástandi en það hafði ekki farið fram.

Geðlæknir var dómkvaddur til að leggja mat á sakborninga. Hann skilaði niðurstöðum í fyrradag. Það er hans mat að sakborningarnir tveir séu ekki hættulegir, hvorki sjálfum sér né öðrum einstaklingum eða hópum,“ segir Sveinn Andri í samtali við mbl.is

Hann segir hættumat greiningardeildarinnar byggja á ákveðnum stöðlum þar sem merkt er í box og það sé alltaf matskennt. Inn í þá greiningu vanti mat á andlegu ástandi en nú liggur það fyrir.

„Þetta ætti að leiða til þess að dómari vindi ofan af þessu hættumati lögreglunnar.“

Gæsluvarðhaldskrafa héraðssaksóknara verður tekin fyrir í dag en óvíst er hvort dómari kveði úrskurð sinn í dag.

mbl.is