„Án nokkurs vafa met í milljörðum talið“

Bergþór Ólason vill fara yfir stöðu ríkisfjármála með Bjarna Benediktssyni.
Bergþór Ólason vill fara yfir stöðu ríkisfjármála með Bjarna Benediktssyni. Samsett mynd

„Raunverulega sýnist mér því að hér sé verið að leggja til útgjaldaauka á milli ára upp á 180 milljarða. Þetta er án nokkurs vafa met í milljörðum talið í þróun útgjalda ríkissjóðs á milli ára,“ sagði Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, um tillögur fjármálaráðuneytisins sem voru kynntar í gær.

Bergþór gerði tillögur ráðuneytisins að breytingum við fjárlagafrumvarpið að umtalsefni við aðra umræðu um frumvarpið á þingi í dag. 

Hann segir að þar hafi verið sagt frá því að lagðar séu til tillögur sem kalli á 37 milljarða útgjaldaaukningu fyrir ríkissjóð. Í tilkynningunni sé reyndar ekki tekið á því að þessi þróun mála kalli fram 14 milljarða vaxtagreiðslur. Þetta komi til viðbótar 129 milljarða kostnaðarauka á milli ára þegar búið að taka tillit til einskiptiskostnaðar vegna Covid í fyrra í fjárlögum upp á 50 milljarða.

„Raunverulega sýnist mér því að hér sé verið að leggja til útgjaldaauka á milli ára upp á 180 milljarða. Þetta er án nokkurs vafa met í milljörðum talið í þróun útgjalda ríkissjóðs á milli ára. Maður taldi ólíklegt að nokkurn tímann yrði viðlíka ár og þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gerði hér allt fyrir alla árið 2007 með mikilli aukningu útgjalda á milli ára en þessi þróun er alveg örugglega að bæta mjög verulega í það,“ sagði Bergþór. 

Hann sagði enn fremur að stjórnlaust ástand ríkti í ríkisfjármálum og óskaði eftir því að fá tækifæri til að eiga orðastað við fjármálaráðherra vegna þessa. 

mbl.is