Fullyrðir að allir myndu hætta ef styrkveitingar hætti

Róbert Þórhallsson, skólastjóri Tónlistarskóla FÍH.
Róbert Þórhallsson, skólastjóri Tónlistarskóla FÍH. Ljósmynd/Aðsend

Í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar felur hluti hagræðingar í því að hætta að niðurgreiða tónlistarnám fullorðinna. Róbert Þórhallsson, skólastjóri Tónlistarskóla FÍH segir að ef þeir þurfi að rukka fólk fyrir alla sína kennslu án styrks sé honum óhætt að fullyrða að allir myndu hætta í skólanum. Hann segir um lýðheilsumál vera að ræða og hreina mismunun.

„Ég veit að ef við þyrftum að rukka fólk fyrir alla sína kennslu án styrksins þá held ég að mér sé óhætt að fullyrða að allir myndu hætta í skólanum. Nemendavefurinn logar hjá okkur,“ segir Róbert.

Ráðast yrði í skipulagsbreytingu

Skólagjöldin eru misjöfn eftir því á hvaða stigi nemendur eru en Reykjavíkurborg hefur talað um að hætta niðurgreiðslu á grunnstigi í söng og grunn- og miðstigi í hljóðfæranámi fullorðinna. Tilkynning hefur ekki borist um við hvað er miðað sem fullorðinn einstaklingur en 25 ára eru viðmið sem eru oft notuð í erlendum háskólum fyrir inntöku. Aðspurður um hvaða áhrif þetta muni hafa á skólann segir Róbert að skólinn myndi minnka heilmikið og að ráðast yrði í skipulagsbreytingu.

„Hann myndi auðvitað minnka heilmikið og yrði það einnig skipulagsbreyting að fara að kenna mjög svo ungu fólki. Reykjavíkurborg hefur ekkert farið í laungötur með að það er þeirra aðal markhópur,“ segir Róbert.

Tónlistarnám sáluhjálp fyrir nemendur

Hann segir það vera skelfilegt ef þetta muni raungerast þar sem oft sé tónlistarnámið mikil sáluhjálp fyrir nemendur.

„Mér finnst þetta alveg skelfilegt ef þetta verður að raunveruleika þar sem þetta er svo mikil sáluhjálp fyrir nemendur sem koma. Það eru nemendur sem hafa sagt að þeir hafi ekki farið í sálfræðitíma frá því þeir byrjuðu að læra hérna. Þetta er lýðheilsumál og er ég á þeirri skoðun að þetta hljóti að vera brjóta í bága við einhver lög því þetta er hrein mismunun,“ segir Róbert.

mbl.is