Kaupa 16 færanlegar kennslustofur fyrir Hagaskóla

Hagaskóli.
Hagaskóli. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Borgarráð hefur samþykkt kaup á 16 færanlegum kennslustofum ásamt samtengdum göngum og salernum fyrir Hagaskóla. Alls er um 1.700 fermetra að ræða.

Nemendur skólans hafa verið í bráðbirgðahúsnæði í Ármúla, þar sem brunavörnum hefur verið ábótavant, og Korpuskóla eftir að mygla greindist í Hagaskóla í nóvember í fyrra.  

Stofurnar verða á tveimur hæðum í tveimur þyrpingum á lóð Hagaskóla í Vesturbænum og verða notaðar til kennslu nemenda á meðan endurgerð núverandi skólahúsnæðis og gerð viðbyggingar við skólann eru í framkvæmd, að því er segir í greinargerð. 

Í notkun í lok mars

Þannig verður hægt að færa alla nemendur skólans úr Ármúla og Korpuskóla aftur á lóð Hagaskóla. Reiknað er með að taka fyrstu stofurnar í notkun í lok mars á næsta ári. Gert er ráð fyrir því að nota þær fyrir aðra skóla borgarinnar þegar framkvæmdum lýkur í Hagaskóla.

Stofurnar voru boðnar út í örútboði innan rammasamnings um færanlegar húseiningar. Eitt tilboð barst frá Terra Einingum ehf. Heildar kaupverð er tæpar 865 milljónir króna. Við kaupverðið bætist kostnaður á vegum Reykjavíkurborgar vegna jarðvinnu, undirstaða og lagna í jörðu sem er áætlaður 80 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert