Hryðjuverkamálið komið á dagskrá

Annar mannanna leiddur út úr Héraðsdómi Reykjavíkur í síðasta mánuði.
Annar mannanna leiddur út úr Héraðsdómi Reykjavíkur í síðasta mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mál þar sem tveir menn eru grunaðir um að hafa undirbúið hryðjuverk hér á landi er komið á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur. Er áformað að málið verði þingfest miðvikudaginn 18. janúar, eða eftir tvær vikur.

Mennirnir tveir voru handteknir 21. september og sátu í varðhaldi fram til 13. desember þegar Landsréttur felldi úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð yfir þeim frá því 9. desember. Var varðhaldskrafan byggð á þeirri forsendu að mennirnir væru hættulegir.

Í framhaldinu fór saksóknari fram á varðhald að nýju, byggt á því að sterkur grunur væri um að þeir hefðu framið afbrot sem gætu varðað 10 ára fangelsi og að varðhald væri nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Landsréttur höfnuðu hins vegar þeirri beiðni og eru mennirnir því ekki í haldi í dag.

Í kjölfar þess að mennirnir voru látnir lausir og ákvörðunar Landsréttar hækkaði lögreglan viðbúnaðarstig sitt vegna hryðjuverka úr A í B. Í tilkynningu frá lögreglunni sagði að um tímabundna ákvörðun væri að ræða og að viðbúnaðarstigið yrði metið reglulega. Það er grein­ing­ar­deild rík­is­lög­reglu­stjóra sem met­ur hættu­stig vegna hryðju­verka. Metur hún hættustigið á þriðja stigi, en það þýðir að deild­in meti það sem svo að auk­in ógn sé vegna þess að til staðar sé ásetn­ing­ur og geta og hugs­an­lega verið að skipuleggja hryðju­verk. 

Annar mannanna er ákærður fyrir tilraun til hryðjuverka og stórfelld brot gegn vopnalöggjöf. Hinn er ákærður fyr­ir hlut­deild í til­raun til hryðju­verka og stór­felld brot gegn vopna­lög­gjöf. Voru þeir ákærðir fyr­ir brot á 100. grein a í hegn­ing­ar­lög­un­um en samkvæmt þeirri grein væri hægt að dæma þá til ævilangs fangelsis, verði þeir fundnir sekir.

100 gr. a hljóðar svo:

„Fyr­ir hryðju­verk skal refsa með allt að ævi­löngu fang­elsi hverj­um sem frem­ur eitt eða fleiri af eft­ir­töld­um brot­um í þeim til­gangi að valda al­menn­ingi veru­leg­um ótta eða þvinga með ólög­mæt­um hætti ís­lensk eða er­lend stjórn­völd eða alþjóðastofn­un til að gera eitt­hvað eða láta eitt­hvað ógert eða í því skyni að veikja eða skaða stjórn­skip­un eða stjórn­mála­leg­ar, efna­hags­leg­ar eða þjóðfé­lags­leg­ar und­ir­stöður rík­is eða alþjóðastofn­un­ar:] 1)

  1. mann­dráp skv. 211. gr.,
  2. lík­ams­árás skv. 218. gr.,
  3. frels­is­svipt­ingu skv. 226. gr.,
  4. rask­ar um­ferðarör­yggi skv. 1. mgr. 168. gr., trufl­ar rekst­ur al­mennra sam­göngu­tækja o.fl. skv. 1. mgr. 176. gr. eða veld­ur stór­felld­um eigna­spjöll­um skv. 2. mgr. 257. gr. og þessi brot eru fram­in á þann hátt að manns­líf­um sé stefnt í hættu eða valdið miklu fjár­hags­legu tjóni,
  5. flugrán skv. 2. mgr. 165. gr. eða veit­ist að mönn­um sem stadd­ir eru í flug­höfn ætlaðri alþjóðlegri flug­um­ferð skv. 3. mgr. 165. gr.,
  6. brennu skv. 2. mgr. 164. gr., veld­ur spreng­ingu, út­breiðslu skaðlegra loft­teg­unda, vatns­flóði, skip­reika, járn­braut­ar-, bif­reiðar- eða loft­fars­slysi eða óför­um annarra slíkra far­ar- eða flutn­inga­tækja skv. 1. mgr. 165. gr., veld­ur al­menn­um skorti á drykkjar­vatni eða set­ur skaðleg efni í vatns­ból eða vatns­leiðslur skv. 1. mgr. 170. gr. eða læt­ur eitruð eða önn­ur hættu­leg efni í muni, sem ætlaðir eru til sölu eða al­mennr­ar notk­un­ar, skv. 1. mgr. 171. gr.

 Sömu refs­ingu skal sá sæta sem í sama til­gangi hót­ar að fremja þau brot sem tal­in eru í 1. mgr.]

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert