„Gömlu reglurnar gilda ekki lengur“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir samninganefnd félagsins alltaf hafa verið skipaða fólki úr öllum geirum, bæði af almenna og opinbera markaðnum. Fólki sem vinnur við flest þeirra starfa undir samninga Eflingar. Það sé hins vegar nýbreytni nú að nefndin sé ekki bara nöfn á pappír.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), vakti athygli á því eftir að Efling sleit viðræðum um nýjan kjarasamning, að hluti samninganefndarinnar starfaði ekki undir kjarasamningi SA heldur væru starfandi hjá opinberum aðilum.

Sýnir örvæntingu manna

Sólveig svarar Halldóri á Facebook-síðu sinni og segir að þegar horft sé til sögunnar hafi þetta alltaf verið svona, ekki aðeins í þeim samningaviðræðum sem hún hafi komið að.

„Að leggjast svo lágt að reyna að láta þetta núna líta út sem einhvern glæp er til skammar. Það sýnir líka vissa örvæntingu manna frammi fyrir þeirri staðreynd að félagsfólk Eflingar sýnir samstöðu hvert með öðru og leiðir sjálft samningaviðræður. Gömlu reglurnar gilda ekki lengur, að menn loki sig inni með öðrum mönnum án aðkomu þeirra sem eiga þó að vinna eftir þeim samningum sem verið er að ræða,“ segir Sólveig.

Hún segir það vissulega nýbreytni að stór samninganefnd Eflingar sé ekki „aðeins til sýnis á einskisverðum pappír“, heldur sé um raunverulega samninganefnd raunverulegs félagsfólks að ræða. Fólks sem hafi sýnt stórkostlega hollustu við verkefnið; „að gera alvöru Eflingar-samning fyrir alvöru Eflingar-fólk.“

Margir mættu læra af konum í nefndinni

„Breytingin er að nú eru þær manneskjur úr framvarðasveit íslenskrar verkalýðsbaráttu, manneskjur sem hafa sjálfar leitt baráttu sína fyrir betri kjörum og unnið stóra sigra. Manneskjur sem hafa hollustu við félaga sína og skilja mátt samstöðunnar. Mættu margir læra af þessum mögnuðu konum sem hafa kennt okkur að samstaða leiðir til sigurs.“

Samninganefnd Eflingar er fjölmenn og hefur mætt fylktu liði á samningafundi hjá ríkissáttasemjara. Þau klæðast merktum jökkum og bera kröfuspjöld. Þá kalla þau upp slagorð til að minna á þau eru ómissandi fyrir hjól atvinnulífsins.

„Hvað erum við?“

„Ómissandi!“

„Hvenær?“

„Alltaf!“

Telur Ólöfu ekki með

Sólveig sagði í gær að það hefði verið einhugur innan samninganefndarinnar um að slíta viðræðum. Nefndin hefði hist oftar en tuttugu sinnum og samstarfið hefði verið gott. Þau hefðu einsett sér að vinna með þeim hætti að þegar ákvörðun væri tekin, þá væri hún einróma.

Hún minntist reyndar ekki á að Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari Eflingar, ætti einnig sæti í samninganefndinni samkvæmt lögum Eflingar. Hún hefur hins vegar ekki fengið að mæta á fundi samninganefndarinnar né taka þátt í vinnu á vegum hennar. Ólöf lýsti því yfir í gær að hún væri ósammála þeirri ákvörðun Sólveigar að slíta viðræðunum.

Fulltrúar Eflingar áður en fundurinn hófst í gær.
Fulltrúar Eflingar áður en fundurinn hófst í gær. mbl.is/Hákon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert