Efling undirbýr verkfallsboðun

Viðræðum milli Eflingar og SA hefur verið slitið.
Viðræðum milli Eflingar og SA hefur verið slitið. mbl.is/Hákon

Samninganefnd Eflingar hefur slitið viðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins. Fulltrúar SA höfnuðu tilboði verkalýðsfélagsins um skammtímakjarasamning, sem var lagt fram í gær. Næsta verkefni samninganefndar Eflingar er að undirbúa verkfallsboðun sem félagsfólk kemur til með að greiða atkvæði um.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, tilkynnti þetta að fundi loknum. Hún segir einhug innan samninganefndarinnar um þessa ákvörðun. 

„Við fengum þau viðbrögð frá Samtökum atvinnulífsins að það væri ekki hægt að fallast á tilboðið okkar,“ segir Sólveig við blaðamenn. Hún kvaðst ekki geta sagt til um hvenær gripið yrði til aðgerða.

„Það á eftir að vinna verkfallsboðun. Það á eftir að fara í gegnum þetta og það er verkefni samninganefndarinnar að gera það.“

Kröfurnar „hófstilltar“

Sólveig segir miður að SA hafi ekki fallist á kröfur Eflingar sem hún telur hófstilltar, sanngjarnar, jarðbundnar og byggðar á efnahagslegum raunveruleika félagsfólks Eflingar.

„Þeir verða að svara fyrir sína afstöðu, það er ekki okkar að gera það,“ bætir hún við og vísar þá til SA.

Þá gaf hún lítið fyrir það „samtal“ sem hefði átt sér stað á fundinum. „Ég myndi segja að það væri mjög erfitt að skilgreina það sem átti sér stað á fundinum sem samtal.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert