„Ég ætla ekki að tjá mig um ásakanir Ólafar Helgu“

Sólveig mætti til stjórnarfundar í dag.
Sólveig mætti til stjórnarfundar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mögulegt verkfall félagsmanna Eflingar verður rætt á stjórnarfundi stéttarfélagsins sem hófst klukkan rétt rúmlega eitt í dag. Engar ákvarðanir verða þó teknar í þeim málum þar sem það er samninganefndar að ákveða hvort boðað verði til verkfalls eða ekki.

Þetta kom fram í máli Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, er hún ræddi við blaðamann mbl.is rétt fyrir fundinn. 

Ekki meinaður aðgangur að stjórnarfundum

Á fundinn voru boðaðir þeir einstaklingar sem eiga sæti í stjórn Eflingar. Agnieszka Ewa Ziólkowska, varaformaður Eflingar, var fjarverandi en ritarinn Ólöf Helga Adolfsdóttir mætti.

Ólöf Helga hefur sagt að henni hafi verið meinaður aðgangur að fundum samninganefndar félagsins, en hún á sæti í nefndinni. Sólveig Anna hyggst ekki tjá sig um orð Ólafar Helgu:

„Ég ætla ekki að tjá mig um ásakanir Ólafar Helgu í garð samninganefndar félagsins. Hennar orð og framkoma í garð forystu félagsins og í garð samninganefndar og hennar lágkúrulega tilraun til að grafa undan samningsstöðu okkar í þessari mikilvægu kjaradeilu dæmir sig sjálft. Það er það sem ég hef að segja um málið.“

Henni er allavega ekki meinaður aðgangur að stjórnarfundum?

„Að sjálfsögðu ekki,“ segir Sólveig Anna.

mbl.is