Foreldrar leikskólabarna uggandi

Foreldrarnir brýna borgaryfirvöld að takast á við málið með hraða …
Foreldrarnir brýna borgaryfirvöld að takast á við málið með hraða og af festu. mbl.is/Hákon

Foreldrar barna á leikskólanum Hlíð í Reykjavík, sem var lokað fyrir 11 vikum vegna myglu, eru uggandi yfir því hve lítið virðist hafa þokast í málinu síðan þeim var tilkynnt um flutning úr húsnæðinu. 

Í tilkynningu brýna þeir borgaryfirvöld að takast á við málið með hraða og af festu.

Húsnæði leikskólans stendur við Engihlíð og gengur undir nafninu Stóra-Hlíð. Í byrjun desember var foreldrum tilkynnt um að gera ætti við húsnæðið. Að því loknu myndi starfsemi leikskólans flytja þangað aftur.

„Nú er janúar, nýtt ár – en leikskólahúsnæðið hefur ekki enn verið fulltæmt, ellefu vikum eftir að leikskólanum við lokað. Engin vinna við ítarlegt mat á ástandi húsnæðisins hefur auk þess farið fram,“ segir í tilkynningunni.

Börnin eru nú á tveimur stöðum, eða í Litlu-Hlíð í Eskihlíð og í öðru hverfi í Safamýri.

Eins og lestarstöð

„Ágætlega virðist hafa tekist að framkvæma mótvægisaðgerðir í húsnæði leikskólans í Litlu-Hlíð, þar sem einnig greindist mygla, án mikillar röskunar fyrir börnin. Bráðabirgðahúsnæðið í Safamýri er hins vegar eins og lestarstöð þar sem börnin deila húsnæðinu með iðnaðarmönnum með tilheyrandi látum, kulda, bleytu og ónæði. Allt kapp verður að leggja á að ljúka þeirri vinnu hratt og vel, enda ljóst að börnin munu þurfa að dvelja þar svo mánuðum skiptir með tilheyrandi skutli á milli hverfa,“ segir í tilkynningunni.

Óku um 1.000 km á dag

Foreldrarnir sendu bréf á skóla-og frístundarsvið og eignaskrifstofu Reykjavíkurborgar 6. desember og óskuðu eftir því að nákvæm verk- og tímaáætlun fyrir Stóru-Hlíð lægi fyrir í síðasta lagi 15. janúar.

„Í 8 vikur eftir að myglan uppgötvaðist óku foreldrar um 60 barna þvert yfir borgina til að skutla og sækja börn sín í gamla leikskólahúsnæðið við Brákarborg þar sem leikskólinn Hlíð hafði tímabundið fengið inni áður en hann fór í Safamýri. Samtals má ætla að foreldrar hafi ekið um 1000 kílómetra á dag fram og til baka á Brákarborg og aukið þar með enn á umferðarþungann í borginni. Var það gert með von og trú um að verið væri að leysa málin hratt og örugglega,“ segja foreldrarnir.

Foreldrafélag og foreldraráð leikskólans sendu nú í morgun skriflegt erindi þar sem óskað var eftir fundi með skóla- og frístundasviði og eignaskrifstofu Reykjavíkurborgar.

Foreldrarnir undirstrika í tilkynningunni að stjórnendur og starfsfólk leikskólans hafa unnið þrekvirki við afar erfiðar aðstæður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert