Samráð nauðsynlegt eigi að breyta flugeldasölu

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir mikilvægt að björgunarsveitir hafi fjárhagslega burði …
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir mikilvægt að björgunarsveitir hafi fjárhagslega burði til að sinna sínu starfi. Sala skotelda sé langstærsti hluti fjáröflunar björgunarsveita á Íslandi. mbl.is/Samsett mynd

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir að ráðuneytið þurfi eiga samráð við björgunarsveitir landsins áður en tekin er ákvörðun sem geti haft áhrif á fjármögnun þeirra og getu til að sinna verkefnum. Þetta kemur fram í svari Jóns við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar varðandi mengun af völdum skotelda.

Andrés spyr m.a. hvað hafi verið gert til að hrinda í framkvæmd þeim aðgerðum sem lagðar hafi verið til af starfshópi um mengun af völdum skotelda og birtar hafi verið í janúar 2020.

Fram kemur í svari ráðherra, að starfshópurinn hafi skilað tillögum um hvernig draga mætti úr neikvæðum áhrifum á lýðheilsu og loftgæði vegna mengunar af völdum flugelda.

„Meginniðurstaða starfshópsins var að nauðsynlegt væri að takmarka sem mest mengun sem veldur óæskilegum heilsufarsáhrifum hjá einstaklingum. Einnig þyrfti að hafa í huga óæskileg áhrif skotelda um áramót á atferli og líðan margra dýra. Jafnframt benti starfshópurinn á að huga þyrfti að loftmengun í víðu samhengi og draga úr mengun þar sem það er mögulegt, til bættra lífsgæða fyrir allan almenning,“ segir m.a. í svarinu.

Bent er á, að ein tillaga starfshópsins hafi lotið að því að gera breytingar á reglugerð um skotelda til að þrengja tímamörk um almenna notkun skotelda og fækka söludögum.

Skipar ekki nýjan starfshóp en mun fara yfir fyrri tillögur

„Að mati ráðuneytisins þarf að eiga samráð við björgunarsveitir landsins áður en tekin er ákvörðun sem getur haft áhrif á fjármögnun þeirra og getu til að sinna verkefnum. Ein tillaga starfshópsins var að skipaður yrði starfshópur til að vinna tillögur um fjármögnun björgunarsveita og var upphaflega lagt upp með að slíkur hópur tæki til starfa og skilaði niðurstöðu áður en tekin yrði ákvörðun um að gera reglugerðabreytingu sem hefði m.a. í för með sér fækkun á söludögum flugelda. Ráðherra hefur tekið ákvörðun um að skipa ekki slíkan starfshóp en hann hyggst ræða þær tillögur sem settar voru fram af starfshóp um mengun af völdum skotelda við Slysavarnafélagið Landsbjörg og björgunarsveitir,“ segir í svari Jóns.

Þá er það mat ráðherra að það sé mikilvægt að samráð eigi sér stað áður en teknar eru ákvarðanir um aðgerðir sem geta haft áhrif á getu þeirra til að sinna sínum verkefnum.

„Í framhaldi af samtali við björgunarsveitir verður tekin afstaða til þeirra tillagna sem lagðar voru fram af hálfu starfshópsins og eru á ábyrgð ráðuneytisins og tekin ákvörðun um næstu skref.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert