Öllum hefur verið bjargað

Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli.
Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli. Ljósmynd/Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli

Öllum hefur verið bjargað niður úr Fjarkanum, annarri skíðalyftu Hlíðarfjalls á Akureyri, sem varð fyrir bilun síðdegis í dag þegar vír fór út af sporinu. Fáir voru í fjallinu enda veður ekki skaplegt til skíðaiðkunnar.

Engum var meint af en sumir urðu nokkuð kaldir, samkvæmt tilkyningu frá Lögreglunni á Norðurlandi Eystra. Starfsfólk Hlíðarfjalls naut liðsinnis Björgunarsveitar, lögreglu og sjúkraliðs við aðgerðirnar í dag.

Uppfært kl. 16:30

Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli, segir í samtali við mbl.is að aðgerðir í dag hafi gengið mjög vel við nokkuð erfiðar aðstæður.

„Við vorum að vinna í miklum vindi og að láta fólk síga niður úr stólunum. Það var erfitt en það hafðist og það eru allir komnir niður. Fólk fékk aðhlynningu og öllum var boðin áfallahjálp, sem enginn taldi sig þurfa. Það voru allir komnir með bros á vör hér inni eftir tiltölulega stutta stund og eftir að hafa fengið heitt kakó í kroppinn.“

Brynjar segir að aðstæður í dag hafi verið með hætti sem hann og hans fólk þekkir ágætlega af svæðinu nema hvað að vanalega blási vindurinn í hviðum en ekki stöðugt á stólana eins og í dag.

„Eftir að vírinn fór af hjólinu var hann settur aftur á sinn stað og reynt með neyðarkeyrslu að mjaka fólkinu niður en vírinn fór þá aftur af hjólinu. Þá var aðgerðaráætlun virkjuð og við fengum Björgunarsveitina Súlur til aðstoðar svo þetta gekk bara vel fyrir sig. Hér voru meira að segja tvær þrettán ára stúlkur sem voru bara mjög brattar eftir þetta og virtust bara hafa gaman að því að fá að síga niður úr stólnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert