„Öllum okkar kröfum var hafnað“

Ari Skúlason, formaður SSF, segist engan veginn sáttur við framlengingu …
Ari Skúlason, formaður SSF, segist engan veginn sáttur við framlengingu kjarasamningsins. mbl.is

Ari Skúlason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF), segir engan samningsvilja hafa verið hjá Samtökum atvinnulífsins um nýja kjarasamninga við SSF. Þremur vikum hafi verið eytt í að ganga á sama vegginn og öllum þeirra kröfum hafi verið hafnað.

„Við ætlum ekkert að standa í þessu lengur. Við erum búin að eyða þremur vikum í ekki neitt þannig við stoppum þarna og gefum fólki kost á að greiða atkvæði um það. Ef það er samþykkt þá stendur það, ef það er ekki samþykkt þá förum við á einhvern annan stað,“ segir Ari í samtali við mbl.is.

Ekki nokkur samningsvilji gagnaðila

Samninganefnd SSF skrifaði í dag undir framlengingu kjarasamnings sem gildir frá 1. nóvember 2022 fram til lok janúar 2024. Í félaginu eru 3500-3600 manns.

„Ég er engan veginn sáttur en svona er þetta bara. Við erum búin að ganga á sama vegginn allan tíman. Það hefur ekkert hreyfst, það er enginn samningsvilji hjá gagnaðila, ekki nokkur,“ segir Ari.

„Við ákváðum að gefa kost á því að greiða atkvæði um það sem var í boði, sem var ekki neitt. Öllum okkar kröfum var hafnað.“

Stytting vinnuviku um 20 mínútur hafnað

„Lægsti hópurinn hjá okkur er ekki að fá það sama og lægstu hópar í þeim samningum sem hafa verið gerðir. Það hefur verið unnið töluvert í launatöflum í öðrum samningum. Við vorum með kröfu um lágmarkshækkun um 40 þúsund en bankarnir töldu sig ekki ráða við það.

Svo vorum við með tillögu um vinnutímastyttingu um 20 mínútur á viku, sem er ekki mikið, en því var hafnað líka. Við reyndum líka að berjast gegn 66 þúsund króna þakinu en það gekk ekki,“ segir Ari.

Bankarnir lögðu ekki í að stytta vinnuvikuna um 20 mínútur …
Bankarnir lögðu ekki í að stytta vinnuvikuna um 20 mínútur á hvern starfsmann, að sögn Ara. Samsett mynd/Eggert

Bankarnir sleppi billegar en önnur fyrirtæki

Ari segir að í ljósi þess að um er að ræða skammtímasamninga þá vildi samninganefndin ekki taka í burtu réttinn frá þeim sem telja sig fá eitthvað út úr samningnum. 

„[Við] skrifuðum undir eiginlega það sem við stóðum frammi fyrir þegar við byrjuðum fyrir þremur vikum,“ segir Ari.

Eru það sambærilegir samningar eins og SA gerði við SGS og VR?

„Nei nei þeir eru langt frá því að vera sambærilegir. Bankarnir eru að sleppa mun ódýrar heldur en t.d. ferðaþjónustan eða verslanir. Það er verið að gera mjög vel við bankana,“ segir Ari.

 „Það er svolítið skrýtið að bankarnir sleppi mun billegar heldur en önnur fyrirtæki í landinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert