„Svo klikkar það bara aftur!“

Í leysingunum á föstudaginn var þurfti að rýma nýbygginguna í …
Í leysingunum á föstudaginn var þurfti að rýma nýbygginguna í Fossvogsskóla sem hriplak. Eitthvað þarf að gerast í byggingarmálum landsmanna svo þetta sé ekki síendurtekið viðkvæði í nýjum húsbyggingum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við tökum undir hvert orð skólastjórans. Við erum með böggum hildar yfir þessari stöðu sem er komin upp og vonumst til að það komi greinargóð svör hjá borginni um hvernig þetta hús verði lagað og að það verði gengið úr skugga um að uppgerð húsin standist allar kröfur,” segir Karl Óskar Þráinsson, formaður foreldrafélags Fossvogsskóla. 

Hann segir að á ráðstefnunni til heiðurs Ríkharði Kristjánssyni hjá RK Design í Háskólanum í Reykjavík í gær hafi komið ýmislegt áhugavert fram um lélega framkvæmd bygginga. „Það sem sló mig verulega voru orð Ólafs Wallevik prófessors í HR um að þessar rakaskemmdir koma ekkert bara fram í skólum heldur í mörgum nýbyggingum. Við foreldrar erum orðnir mjög meðvitaðir um öryggi barna okkar og við fylgjumst kannski meira með þessum málum en fólk gerir almennt,“ segir Karl Óskar og segir að þess vegna komi þessi myglumál frekar fram í skólum, en ekki vegna þess að skólarnir séu verr byggðir en aðrar byggingar. 

Karl Óskar Þráinsson, formaður foreldrafélags Fossvogsskóla.
Karl Óskar Þráinsson, formaður foreldrafélags Fossvogsskóla.

Börnin lengur í skólanum en heima

„Það hefur orðið vitundarvakning meðal foreldra og starfsmanna skóla um að það þurfi alltaf að bregðast við raka í húsnæði. Við felum bæjaryfirvöldum umsjá barna okkar heilan vinnudag alla virka daga, lungann úr árinu. Yfir skólaárið eru börnin lengur vakandi í skólanum og tómstundum heldur en heima hjá sér. Við verðum að geta treyst því að sveitastjórnir geri allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja öryggi barnanna.“

Karl Óskar segir að það þurfi greinilega að taka heildstætt á öllum þessum málaflokki svo þessi mál séu ekki endalaust að koma upp aftur og aftur. „Mín upplifun á þessum tíma er að þessi keðja hönnunar, framkvæmdar og eftirlits sé bara mjög brothætt. Erfitt hefur verið að fá fram hvar vandinn liggur; hvar ábyrgðin sé, svo hægt sé að bæta úr. Það er mín upplifun. Allir verða sammála um að þetta sé vandamál, það hafi eitthvað klikkað og að það þurfi að laga það. Svo klikkar það bara aftur! Það er orðin þreytt tugga til foreldra og starfsfólks skólans að það sé súrt að þetta hafi klikkað. Við höfum heyrt það of oft.“ 

Hann segir að sem betur fer séu foreldrar nú í góðu samtali við borgina um skólahúsnæðið og endurbæturnar á því svo þau eigi von á að fá nánari upplýsingar um þetta og að málið verði klárað.

„En við gerum líka ákall um það að allt skólasamfélagið sé upplýst. Borgin þarf að tala við okkur öll, foreldra og starfsfólk um málið, ekki bara við smærri hóp. Það skiptir miklu máli upp á traustið og það hefur stundum fjarað undan því í þessu óheyrilega langa verkefni sem við erum enn að takast á við í skólanum.“

mbl.is